139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

samgöngumál á suðvesturhorni landsins.

[11:57]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Samgöngumál eru mannréttindamál og eiga fyrst og síðast að snúast um öryggi. 70% landsmanna búa á suðvesturhorninu, á svokölluðu höfuðborgarsvæði, en þegar rýnt er í tölu Umferðarstofu yfir banaslys í umferðinni blasir við að 20% banaslysa á undanliðnum 10 árum hafa orðið á höfuðborgarsvæðinu en 80% úti á landi. 198 Íslendingar hafa farist í umferðarslysum síðustu 10 árin. Í þessa tölu verðum við að horfa þegar við ræðum um samgöngumál.

Það má líka segja að munurinn á samgöngumálum úti á landi og á suðvesturhorninu sé kannski einkanlega sá að hér snýst þetta um að komast hraðar, en úti á landi snýst þetta um að komast yfirleitt. Enda þótt umferðaröryggismál liggi þungt á fólki úti á landi er það jafnframt, frú forseti, gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla íbúa landsins að samgöngur til höfuðborgarinnar séu greiðar og lúti sömu öryggislögmálum og samgöngur gera og eiga að gera úti á landi. Þess vegna leggur sá sem hér stendur ofuráherslu á að vegir til og frá Reykjavík verði styttir svo sem kostur er og horfir þar ekki síst til samgöngumannvirkja sem geti skilið að akstursstefnur. Öryggismálin eru mjög brýn í þá veru, enda verða flest banaslys þegar bílar aka hver á annan á þungum umferðaræðum hér á þessu svæði. Þess vegna er gríðarlega mikið hagsmunamál að stytta vegalengdir hér til að allir landsmenn komist greitt til höfuðborgarinnar.

Svo má hins vegar, frú forseti, horfa til tveggja kerfa í þessu efni. Það gengur ekki að ætlast til þess að allir hjóli til vinnu hér á landi. Það er e.t.v. hægt í Reykjavík, og að aka á litlum bílum, en það verður ekki hægt að búa það kerfi til (Forseti hringir.) sömuleiðis úti á landi.