139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

samgöngumál á suðvesturhorni landsins.

[12:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ein lítil leiðrétting, þetta er opinber framkvæmd sem við erum að tala um en ekki einkaframkvæmd í þeim skilningi sem rætt hefur verið um einkaframkvæmdir.

Síðan varðandi hlutfallið, ég verð að segja að ég er ekki þjakaður af þessu hlutfalli. Ég vil frekar láta stjórnast af öðrum þáttum en hlutfallstölum af þessu tagi og tek undir með málflutningi hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur og fleiri í því efni að horfa til öryggisþátta. Þá er það alveg rétt sem fram kemur hjá fyrirspyrjanda og fleirum að Vífilsstaðagatnamótin eru mikilvæg hvað þetta varðar. Ég er þeirrar skoðunar, þó að við eigum eftir að hlusta betur á bæjaryfirvöld í Garðabæ, að ódýrari bráðabirgðalausn sem Vegagerðin hefur stungið upp á, áþekk þeirri sem er á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar og kosta mun 300–400 millj. kr., er skynsamlegri kostur miðað við þær aðstæður sem við búum við, skynsamlegri en dýrari framkvæmdir.

Önnur slík öryggisaðgerð er mjög brýn. Hv. fyrirspyrjandi og fleiri aðilar hafa oft vakið máls á því, breikkun vegarins við álverið. Það er stórkostlegt öryggisatriði að fá úr því bætt. Ég vil frekar horfa á þetta með þeim hætti.

Varðandi kjördæmapot og slíka hugsun, ég ítreka bara að við sem búum á höfuðborgarsvæðinu erum flest hver með landið allt undir. Þegar hv. þm. Þór Saari notar á samanburðarmælikvarða kaffihúsagesti á Café París og þá sem fara um Reykjavíkurflugvöll er þar ekki saman að jafna, það er ekki samanburðarhæft. Ég hef engar áhyggjur af kaffihúsagestum á Café París, en ég hef áhyggjur af því hvort fólk sem kemur af landsbyggðinni fái góða þjónustu og eigi greiðan aðgang að höfuðborgarsvæðinu. Það tel ég persónulega að verði best tryggt með því (Forseti hringir.) að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni.