139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við báðum spurningunum er: Nei. Þetta hefur ekki í för með sér neina breytingu á rekstrarformi Landsvirkjunar, heldur eingöngu þeim þáttum sem snúa að stöðu eigandans gagnvart fyrirtækinu og ábyrgðunum sem eru til staðar í gegnum eignarhaldið. Það eru gerð skýrari skil á milli eigandans og síðan fyrirtækisins, og óháðum aðila falið að meta hvað sé hæfilegt ábyrgðargjald þannig að í raun sé sá munur jafnaður í gegnum töku ábyrgðargjaldsins. Þar með næst að uppfylla samkeppnisreglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það er síðan algerlega óháð því hvernig rekstrarform fyrirtækisins nákvæmlega er en Landsvirkjun er eins og kunnugt er sameignarfélag á grundvelli sérlaga þar um.

Nákvæmlega sams konar breytingar verða hvað varðar Orkuveitu Reykjavíkur. Þar er sameignarformið sömuleiðis enginn þröskuldur í vegi.

Varðandi þá spurningu hvort fjármálaráðherra, eða löggjafinn þar með í gegnum heimildir til að ábyrgjast lán, taki í gegnum þær heimildir einhverjar aðrar ákvarðanir er svo ekki. Því er að sjálfsögðu haldið algerlega aðgreindu, enda sjálfstæð stjórn yfir Landsvirkjun sem ber ábyrgð á þeim rekstri og ásamt með framkvæmdastjóra stjórnar dagsdaglegum rekstri fyrirtækisins og taka þar ákvarðanir um framkvæmdir, fjárfestingar og annað eins og vera ber. Því er algerlega haldið aðgreindu og ég veit ekki til þess að menn hafi nokkurn tímann hugleitt það að nota ríkisábyrgðirnar sjálfar sem slíkar sem eitthvert stýritæki. Mér er ekki kunnugt um það.