139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og málefnalega. Hann hjó eftir því að ég sagði að margt gott kæmi frá Evrópusambandinu. Það er ekki þannig að ég hati Evrópusambandið, margt gott hefur komið frá því, samkeppnislög og margt fleira, en það er ekki þar með sagt að ég vilji afsala mér sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi til Evrópusambandsins, það er tvennt ólíkt. Maður getur þegið gott frá einhverjum án þess að ganga inn í hann.

Ég vildi spyrja hv. þingmann að nokkru. Í frumvarpinu kemur fram að 2. mgr. 1. gr., þá seinni málsliðurinn, eigi að orðast svo, með leyfi frú forseta:

„Hvor eigandi um sig“ — þ.e. ríkið og ríkið — „er í einfaldri ábyrgð fyrir þeim skuldbindingum fyrirtækisins sem heimilaðar eru skv. 9. gr., en um innbyrðis skiptingu á ábyrgð þeirra fer eftir eignarhlutföllum.“ — Mjög skrýtið allt saman. — „Ábyrgð eigenda nær ekki til annarra skuldbindinga fyrirtækisins.“ — Þetta er mikilvægt, það er búið að breyta þessu í einkahlutafélag að einhverju leyti. Síðan er í 2. gr. frumvarpsins aftur vísað í 9. gr.:

„Nýjar lántökur, sem njóta skulu ábyrgðar eigenda skv. 2. mgr. 1. gr.“ — þarna er vísað aftur, þær vísa hvor í aðra — „eru háðar samþykki fjármálaráðherra.“ — Það er hvergi talað um það ákvæði stjórnarskrárinnar, ég sé það a.m.k. ekki, að ekki megi skuldbinda ríkið nema með lagasetningu. Þarna er fjármálaráðherra kominn með heimild til að skuldbinda ríkið, bara einn og sér, og þetta ákvæði 40. gr. gildir þá ekki.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er formaður efnahags- og skattanefndar, hvort ekki þurfi að skoða þetta alveg sérstaklega í nefndinni.