139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

vinnumarkaðsmál.

[15:33]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurn hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um vinnumarkaðsmálin. Varðandi samskiptin við aðila vinnumarkaðarins lá fyrir að hæstv. ríkisstjórn boðaði til fundar með aðilum stjórnar og stjórnarandstöðu þar sem rætt var um hvort menn færu í sameiginlega vegferð varðandi atvinnumálin og leituðu eftir samstarfi um þær tillögur sem hafa komið m.a. frá stjórnarandstöðunni og ríkisstjórnin hefur sjálf verið með varðandi úrbætur í þeim málum og að við færum sameiginlega í þá vegferð.

Hv. þingmaður getur kannski upplýst mig betur um afstöðu Framsóknarflokksins í því máli, en staðan hefur verið þannig að menn hafa í raunveruleikanum ekki verið að fullu tilbúnir til að koma að þessu borði með þeim hætti sem lagt var upp með. Það sama hefur gerst með Samtökum atvinnulífsins og launþegahreyfingunni. Að vísu hef ég ekki setið marga fundi með þeim, hef raunar ekki verið á þeim fundum yfir höfuð en hef átt viðræður við formann Alþýðusambandsins persónulega sem ráðherra. Varðandi stöðugleikasáttmálann og þá umræðu er í raunveruleikanum búið að vera að vinna eins og hér hefur komið fram að vegaframkvæmdum og ýmsu í kringum þær. Menn hafa líka skoðað atvinnumálin á Suðurnesjum, allt í kringum það sem þar er, og farið yfir sviðið, hvað hægt er að bæta í sambandi við atvinnulífið. Ég skal hreinskilnislega viðurkenna að sem félags- og tryggingamálaráðherra hef ég meira fjallað um úrræði í tengslum við atvinnuleitendur og unnið með Vinnumálastofnun í sambandi við úrræði þar frekar en akkúrat að vera í framlínunni varðandi umræðu um samstarf Samtaka atvinnulífsins, launþegahreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar. Þær viðræður (Forseti hringir.) hafa engu að síður átt sér stað og eru í fullum gangi, en það er óljóst með aðkomu stjórnarandstöðunnar. Þannig var málið lagt upp í þessari lotu.