139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

skattaleg staða frjálsra félagasamtaka.

140. mál
[15:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála hv. málshefjanda um það að starfsemi þessara félagasamtaka er gríðarlega mikilvæg og þau lyfta víða grettistaki. Ég held enda að engin deila sé um það og menn vilja að sjálfsögðu tryggja þeim viðunandi og góð starfsskilyrði. Ég held að löggjöf um þau sé mjög mikilvæg í þeim efnum og það mun auðvelda skattyfirvöldum, bæði löggjafanum sem slíkum og þeim sem fara með skattframkvæmd, lífið ef skýr skilyrði og skýrir skilmálar eru í lögum um þessa starfsemi þannig að síður þurfi að byggja framkvæmdina á því að fara ofan í samþykktir einstakra félaga og skoða það nákvæmlega hvort þannig er um starfsemina búið, hvort samþykktirnar eru þannig að þær uppfylli skilyrðin til undanþágu frá þessum eða hinum skatti.

Lög sem taka á þessu og samræma þetta eru tvímælalaust góður undanfari þess að síðan sé hægt að endurskoða skattalegu hliðina.

Það eru alltaf tvær hliðar á þessu. Önnur er sú sem snýr að þeim ágætu verkefnum sem þarna eiga í hlut og vilja til að styðja við þau. Hin er sú sem snýr að því að hafa skattalög og reglur og framkvæmd einfaldar, hafa undanþágur sem fæstar og skýrastar og svo er þarf náttúrlega ríkissjóður að passa sitt. Það gildir í þessu eins og svo ótalmörgu öðru, að það koma óskir, mér liggur við að segja á degi hverjum, um það hvort ekki sé hægt að undanþiggja þetta eða hitt skatti, þegar þessi eða hinn maðurinn fær verðlaun eða eitthvað slíkt gerist, þetta sé nú svo gott mál og gott tilvik og viðkomandi svo vel að því kominn o.s.frv. Þá verða menn að standa við það að halda sig við einhver prinsipp í þessum efnum en þau eiga að vera skýr og þau eiga að vera meðvituð og það á að taka pólitískar ákvarðanir um það nákvæmlega hvernig við viljum hafa fyrirkomulagið og útfæra það síðan í lögum.

Ég er síður en svo að hafna því að til greina komi að gera þarna einhverjar breytingar. Eins og ég sagði er fjármálaráðuneytið tilbúið til þess (Forseti hringir.) fyrir sitt leyti að taka þátt í slíkri vinnu, en ég vil heldur ekki lofa neinni tiltekinni niðurstöðu í þeim efnum fyrir fram.