139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

raforkuverð.

130. mál
[16:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem liggur fyrir eru það tæpar 200 millj. kr. sem á að lækka núna framlög um til nýrra hitaveitna og niðurgreiðslna í sama pakkanum.

Auðvitað getur ráðuneytið eða fjárveitingavaldið á hverjum tíma ákveðið að annar hlutinn minnki og það verði reynt að setja meira í niðurgreiðslur en nýjar hitaveitur. En allt ber að sama brunni, það er þjóðhagslega mjög hagkvæmt að koma heimilum og fyrirtækjum yfir í hitaveituna. Þetta á ekki bara við um heimilin, það eru líka fyrirtæki úti á landi sem njóta þessarar fyrirgreiðslu og þau eru mjög mikilvæg í sinni heimabyggð.

Verja lögheimilin, sagði hæstv. ráðherra. Þýðir það að þeir sem reka tvö heimili, t.d. vegna vinnu, í sveit og í þéttbýli eða íbúðir fyrir námsmenn, geta það ekki lengur? Þýðir það það? Á að breyta t.d. þakinu sem notað er, á að lækka kílóvattstundina sem greitt er fyrir? Á að fara úr 40 þús. kílóvöttum eða hvað það var niður í 35 þús.? Eða hver er hugsunin með þessu?

Við komum að þessum sama punkti, með þessum niðurskurði sem verður munum við fara út í að mismuna fólki enn meira en er í dag. Ég veit að hæstv. ráðherra er ekkert hrifinn af því frekar en ég. Við hljótum því að þurfa að setja af stað heildarmyndina, skoða málið í heild, hvort við getum farið þessa leið. Við erum þá að skerða lífskjörin hjá ákveðnum hópi fólks, ekki öllum, með þessari aðgerð.

Frú forseti. Við hljótum að taka mjög hart á því að þetta eigi að gerast — (Forseti hringir.) Já, afsakið, tíminn er víst búinn. (Gripið fram í.)