139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

neyslustaðall/neysluviðmið.

127. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin, að dagsetning sé komin og þetta muni koma fram í desember. Það hefur verið kallað eftir því í samfélaginu að fá skýr neysluviðmið, sérstaklega hvað varðar úrræðin sem Alþingi hefur samþykkt varðandi skuldaaðlögun, greiðsluaðlögun og niðurfærslu á skuldum heimilanna. Þetta hefur líka komið upp í umræðu um annars vegar námslán og hins vegar atvinnuleysisbætur. Það er nauðsynlegt að til séu viðmið þannig að menn átti sig á því hvað þarf til framfærslu í landinu.

Það vakti athygli mína þegar ég las fundargerðir velferðarvaktarinnar þar sem fjallað var um neysluviðmið. Þar kom fram hjá nokkrum fundarmönnum að það hafi verið andstaða hjá Samtökum atvinnulífsins um að taka upp samræmd neysluviðmið. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins skuli ekki styðja bæði meiri hluta velferðarvaktarinnar og ASÍ í nauðsyn þess að til séu samræmd neysluviðmið. Síðan mun taka einhvern tíma að innleiða þetta hjá öllum stofnunum og sjóðum hins opinbera, bæði hjá ríkinu og sveitarfélögum. Þá erum við alla vega komin með einhverjar raunverulegar tölur. Það kom fram í orðum ráðherrans að það væri fyrst og fremst byggt á neyslukönnun Hagstofunnar. Ég held að það sé mikilvægt að skoða hvernig hægt er að tryggja að neyslukönnun Hagstofunnar sé uppfærð hraðar en núna er gert. Ég vil benda á að við erum svo heppin hér á Íslandi að við erum með eina reiknistofu fyrir bankana og því ætti að vera hægt að taka (Forseti hringir.) rauntölur hratt út úr kerfinu til að sjá hver raunveruleg neysla er hjá einstökum heimilum.