139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

starfsemi og rekstur náttúrustofa.

182. mál
[18:25]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég held að ekkert sé ofsagt um mikilvægi náttúrustofanna og virkni þeirra í héraði, bæði á sínu sviði og fyrir menningu og menntir almennt. Það er auðvitað sorglegt sem hefur verið vakin athygli á að þær eins og aðrar stofnanir sem þiggja fé úr ríkissjóði þurfa að horfa fram á minni framlög á þessu ári. Ég ætla ekki að skipta mér af deilu hv. þingmanna og hæstv. ráðherra um prósentutölur í því sambandi.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því og spyrja hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra hver afstaða þeirra sé til áttundu náttúrufræðistofunnar sem er eina náttúrufræðistofan á höfuðborgarsvæðinu sem lýtur þeirri skyldu að stunda fræði og rannsóknir hér og hefur m.a. tekist á við mjög mikilvægar rannsóknir í Þingvallavatni sem ekki njóta stuðnings (Forseti hringir.) umhverfisráðuneytisins heldur eru komnar upp á safnliði (Forseti hringir.) umhverfisnefndar.