139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:51]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er greinilegt að hann er eins og margir, bæði hér á þingi og víðar, hugsi um hvert við stefnum í umhverfismálum burt séð frá þessu einstaka frumvarpi. Þó að fjölgun t.d. ferðamanna upp í 1 milljón á ári sé æskileg fyrir hagkerfið er hugtakið ferðamannamengun orðið mér ofarlega í huga. Það var ekki ætlun mín að gagnrýna þetta frumvarp eingöngu sem eitthvert vont mál, alls ekki. Ég skil mjög vel þá þörf hjá fjármálaráðuneytinu og hæstv. fjármálaráðherra að leita leiða til að fjármagna þann mikla halla sem hefur verið á ríkissjóði vegna hrunsins. Það þarf að leita allra góða leiða til að gera það. Við höfum aftur á móti bent á það í Hreyfingunni að það sé hægt að ná frekar í peninga til þess að rétta af þann halla með alvöruauðlindagjöldum, t.d. gjaldi á hvert þorskígildistonn sem úthlutað er eða hvert það megavatt sem unnið er úr jörðu á virkjunarstað, frekar en að velta því yfir á almenning í landinu. Það væru raunveruleg auðlindagjöld, og það væru raunveruleg auðlindagjöld eða losunargjöld að skattleggja losun þeirra sem menga mest. Það er raunverulegt auðlindagjald líka. Það er hægt að útfæra þessar leiðir betur og sanngjarnar að mínu mati sem ég tel að skipti máli, en ekki eingöngu fara leiðir eins og gert er hér með ótal undanþágum sem gera eftirlitið með þessu líka alveg stórkostlega götótt og erfitt.