139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[17:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við vissulega merkilegt mál. Ég verð í upphafi máls að segja að ég er hlynntur því og tel mikilvægt að við leitum leiða til að minnka losun, eins og markmiðið er með frumvarpinu. Það er mjög mikilvægt. Við eigum að leita allra leiða til að búa til hvata í samfélaginu til að það sé gert, hvort sem við ræðum um heimilin, einkabílinn, fiskiskipaflotann eða hvaðeina. Það er mikilvægt.

Ég velti því hins vegar fyrir mér, frú forseti, hvernig frumvarpið eins og það lítur út við 1. umr., getur tekið breytingum. Ég tek undir það sem kom fram hjá nokkrum hv. þingmönnum að frumvarpið býður upp á mismunun milli þegna landsins. Það má jafnvel halda því fram að með frumvarpinu sé í sjálfu sér verið að verðlauna þá sem búa við þær aðstæður að geta ekið um á smáum, eyðslugrönnum litlum bílum sem er hvatinn í frumvarpinu að fólk kaupi í auknum mæli og noti. Það er vel hægt þar sem götur eru vel mokaðar, borið er á þær salt og sandur og þess háttar. Það er hreinlega óréttlát að þeim sem búa úti á landi sé refsað eins og ég vil meina að hin hliðin á frumvarpinu sé. Það er verið að verðlauna þéttbýlið að einhverju leyti en refsa hinum sem þurfa á fjórhjóladrifnum bílum að halda. Þeir eyða yfirleitt meiru og eru stærri og öruggari. Mér sýnist að þetta frumvarp muni leiða til þess.

Hér hefur verið minnst á ferðaþjónustuna. Ef ég skil frumvarpið rétt eru töluverðar líkur á því að kostnaður hennar muni aukast og mun hún þá væntanlega, eins og algengt er, reyna að velta því yfir á viðskiptavinina sem getur haft neikvæð áhrif á móti. Þessu vil ég koma á framfæri.

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir umræðuna um metanökutækin sem hv. þm. Mörður Árnason og fleiri hafa tekið þátt í. Við þurfum að passa að hvatinn sé virkur. Það sem vekur athygli mína er að í fjölmörgum undanþágum frá reglunum þar sem rætt er um slökkvibifreiðar og ýmislegt er að sjálfsögðu ekkert óeðlilegt að séu undanþegnar eins og haffær ökutæki á hjólum fyrir láð og lög o.s.frv. en lögreglubifreiðar eru ekki taldar upp ef það hefur ekki farið fram hjá mér. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig standi á því. Af hverju og hvaða rök eru fyrir því að lögreglubifreiðar, sé það rétt hjá mér, eru ekki á þessum undanþágulista? Þessu tengt vil ég nefna að ég hef oft furðað mig á því af hverju lögreglan hefur ekki leyfi til að keyra á litaðri olíu. Auðvitað er verið að færa úr einum vasa í annan en við erum eins og við vitum með lögregluna, þessa stofnun sem Íslendingar treysta langbest, í spennitreyju út af fjármagni og slíku. Ég held að það væri mikilvægt ef hægt væri að auka möguleika þeirra og nota meira bifreiðarnar. Það er mikill kostnaður sem lögreglan hefur af bifreiðum. Dæmi er um að lögreglan sjái sér ekki fært að keyra bílana út af kostnaði. Leita þarf leiða til að lækka kostnaðinn, m.a með undanþágum sem þessum.

Síðan langar mig að nefna að hér stendur á bls. 5 í athugasemdum, með leyfi forseta: „Stjórnvöld geta með skattlagningu ráðið miklu um samsetningu og notkun bílaflotans.“ Þetta er að sjálfsögðu alveg rétt. Það má eflaust færa rök fyrir því að stjórnvöld hafi á liðnum árum ekki gert þetta með nógu varfærnum hætti, hér hafi verið of mikið af stórum og eyðslufrekum bílum og þess háttar. Það má spyrja sig hvort hægt sé að reyna að ýta sem flestum út í smábíla sem vissulega eyða minna eða í mörgum tilfellum, ekki algilt þó, eyða minna en eru um leið óöruggari og ekki eins mikil praktík í þeim eins og stærri bílum. Vera má að þetta gangi ekki upp á endanum.

Síðan kemur fram í umsögn um frumvarpið hversu mikil skattagleði er í frumvarpinu. Ég er ekki búinn að átta mig á því enn þá því það kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins, frá fjárlagaskrifstofunni, að þetta hafi eiginlega engin áhrif á ríkissjóð þegar upp er staðið.

Eins og ég sagði áðan er mikilvægt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, koltvísýrings. Við verðum að stíga þau skref sem við þurfum í því. En, frú forseti, ég tel að við verðum að skoða það í nefnd í umfjöllun um málið hvort eðlilegt sé að setja það fram með þessum hætti þar sem við vitum að fjöldi íbúa landsins býr við þær aðstæður að geta ekki nýtt sér kosti sem í frumvarpinu felast sem er að kaupa smábíla. Vegir eru jafnvel lítið mokaðir og lítið er um hálkuvarnir þar sem þarf að fara um fjallvegi og slíkt. Við erum að tala um svæði fyrir utan höfuðborgarsvæðið þar sem yfir marga fjallvegi er að fara til að sækja þjónustu, koma börnum í skóla o.s.frv. Það er ekki hægt að segja við íbúa á þessum svæðum að þeir geti skipt úr fjórhjóladrifnum jepplingi yfir í lítinn fólksbíl, vegna þess að (MÁ: Breyta í metanbíla.) Já, breyta í metanbíla kallar hv. þm. Mörður Árnason fram í. Ég er algerlega sammála honum í því. Við þurfum að vinna í því að breyta bílunum í metanbíla en það þarf þá í fyrsta lagi að vera framkvæmanlegt. Það þarf líka að vera til metan til að setja á bílana á ýmsum stöðum. Einhvern veginn, frú forseti, svo ég taki langsótt dæmi, sé ég ekki fyrir mér stóra metanstöð, t.d. í Norðurfirði á Ströndum en ég útiloka ekki neitt í því. Þar hafa menn löngum verið sjálfbjarga og framsýnir.

Í fjárlagavinnunni förum við í gegnum töluverðar breytingar. Við erum að tala um húshitunarkostnað eins og nefnt hefur verið. Við erum að tala um sama hóp í þéttbýlinu sem við ætlum að auka mismuninn með húshitunarkostnað og líka auka mismuninn með hækkun á gjöldum eða þessari breytingu á bifreiðakostnaði, fyrir utan það sem nefnt hefur verið, t.d. flutningskostnað og annað.

Það er annað sem mig langar að nefna sem ég sé ekki í frumvarpinu. Það eru fatlaðir og eldri borgarar sem þurfa á fjórhjóladrifnum bílum að halda, bílum sem eyða meiru svo fólk komist leiðar sinnar. Þetta eru yfirleitt dýrari bílar. Þetta eru bílar eins og þeir sem nefndir voru; Toyota Rav4 og jafnvel Subaru Legacy. Þetta eru ekki bílar sem fólk kaupir sem hefur dýran smekk. Þetta eru einfaldlega praktískir bílar fyrir fjölskyldur og eldra fólk sem þarf á svona tækjum að halda.

Frú forseti. Það er ekki hægt að fara með málið í gegnum þingið nema það verði rækilega skoðað hvort hér geti verið um mismunun að ræða milli íbúa landsins. Fyrir utan það að ef fjárlagafrumvarpið nær fram að ganga eins og það er sem ég hef vonir um að verði ekki, þá er verið að skerða ýmsa þjónustu, t.d. heilbrigðisþjónustu sem fólk þarf að sækja um lengri veg. Þá er oft og tíðum yfir erfiða fjallvegi og slíkt að fara þá er fólki ekki boðið upp á að vera á litlum bílum.

Niðurstaða mín, frú forseti, er að mikilvægt er að við beitum okkur fyrir því að minnka mengun á landinu okkar fallega. Íslendingar hafa svo sannarlega gert það og reynt. Það er mikið verkefni eftir hvort sem það er í bílaflotanum, fiskiskipaflotanum eða öðrum. Við erum að læra meira. Það er víða að koma tækni og breytingar. Svo ég nefni sorp og betri nýtingu á eldsneyti en við verðum að taka þá staðreynd inn í jöfnuna að við búum á Íslandi. Þetta er sérstakt land. Það er ekki hægt að líkja aðstæðum hér við Belgíu eða Danmörk eða eitthvað slíkt. Við verðum að taka það inn í myndina.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en vona að málið fái skoðun út frá þessum jafnræðissjónarmiðum sem ég hef komið á framfæri.