139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[17:32]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var góð kennslustund í gróðurhúsaáhrifum sem við fengum áðan. Hæstv. fjármálaráðherra brá sér í búning vísindamannsins og útskýrði þetta fyrir okkur, sem er gott.

Það er ósamkvæmni í málflutningnum. Hæstv. ráðherra segir að það sé barnalegt að segja að það skipti einhverju máli í stóra samhenginu hvort við getum minnkað gróðurhúsalofttegundir í eitt ár sem næmi milljón tonnum. Á sama tíma talar hann um það sem stórkostlegt framlag til þróunar mannkyns að við náum kannski yfir nokkurra ára tímabil að minnka gróðurhúsalofttegundir um 100 þúsund tonn með því að innleiða þessi lög, en hvað um það.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um staðhæfinguna með orkuna. Það kemur fram í rammaáætlun II, sem fer í umræðu og vinnslu í þinginu, að á suðvesturhorninu séu sirka 1.500 megavött sem hægt er að virkja í sátt við náttúru sem er efnahagslega hagkvæmt. Jafnframt vitum við það, báðir þingmenn Norðausturkjördæmis, að talið er að Þeistareykir hafi inni um 400–600 megavött. Af tilraunum sem gerðar hafa verið í Vítismóum, þó svo þær hafi misheppnast að einhverju leyti, virðast vera miklir möguleikar hvað varðar djúpborun. Þar var boruð ein hola á svæði sem mest hefur gefið 12 megavött, hola sem gefur í kringum 27 (Forseti hringir.) megavött. Er hæstv. fjármálaráðherra ósammála því mati sem kemur fram í rammaáætlun II?