139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

takmarkanir á dragnótaveiðum.

[11:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Dragnótaveiðar eru atvinnuskapandi fyrir sjómenn og verkafólk, þær skapa sveitarfélögum tekjur, hafnargjöld og þess háttar. Það er athyglivert að víða eru dragnótaveiðar stundaðar í fullri sátt og samlyndi með öðrum veiðum, þar á meðal handfærum og línu. Það er ekki hægt að stilla þessu veiðarfæri gegn hinu, eins og mér finnst stundum menn gera.

Rannsóknir hafa heldur ekki sýnt fram á að það sé nein skaðsemi af þessu veiðarfæri, í rauninni þvert á móti. Við höfum nýlega séð skýrslur og úttektir sem sýna fram á að ýsugengd er meðal annars að aukast í Húnaflóla og þorskur í Skagafirði þar sem þessar veiðar hafa verið stundaðar.

Sá er hér stendur — svo það sé alveg á hreinu — sat í sveitarstjórn Skagafjarðar þegar samþykkt var að óska eftir því að bann yrði lagt við dragnótaveiðum í Skagafirði. Sú ákvörðun var ekki byggð á neinum vísindalegum ákvörðunum og engin vísindaleg rök færð fyrir því. Frá því að við fórum í gegnum þetta hef ég haft miklar efasemdir um að þetta hafi verið réttmæt ákvörðun hjá sveitarstjórninni.

Hvernig eigum við að leysa þann ágreining sem uppi er? Það er ekki hægt nema með frekari rannsóknum, frú forseti, og meðan slíkar rannsóknir fara fram hvet ég hæstv. ráðherra til að endurskoða ákvarðanir sínar og breyta fyrri ákvörðun um bann við dragnótaveiðum, setja mikinn kraft í rannsóknir og taka síðan ákvörðun byggða á þeim rannsóknum. Það er ekki hægt í þessu frekar en öðru að láta hugmyndafræði eða tilfinningar ráða þó að það hafi stundum verið gert.