139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:15]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki þannig að samfélagið á Sólheimum hafi verið í hættu. Það hafa verið uppi sjónarmið um þjónustusamning og hvernig honum er hagað milli Sólheima og félagsmálaráðuneytisins um nokkra hríð. Nú er gert ráð fyrir að sveitarfélagið Árborg geri þjónustusamning við Sólheima vegna þjónustusvæðisins á Suðurlandi. Vinna við þetta er þegar hafin, það svarar spurningu hv. þingmanns.

Þar verður tekið mið af þjónustusamningnum sem hefur verið í gildi milli ráðuneytisins og Sólheima. Jafnframt verði litið til fjárlaga 2010 varðandi fjármuni sem Sólheimar fá greidda úr ríkissjóði á þessu ári. Öryggi starfseminnar á Sólheimum er því ekki ógnað á nokkurn hátt við yfirfærsluna en núna verða það sveitarfélögin sem taka yfir samningssambandið við Sólheima í stað ríkisins. Það er bein og eðlileg afleiðing af yfirfærslunni og engin ástæða til að óttast það í tilviki Sólheima.