139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir áhyggjur manna um allt of hraða meðferð málsins. Ég veit að það er hvorki við ráðherrann né ráðuneytið að sakast. Ég mundi gjarnan vilja að hæstv. ríkisstjórn færi nú að líta öðruvísi á svona mál. Þarna eru það notendur þjónustunnar, fatlaðir, sem eiga að skipta máli númer eitt, tvö og þrjú, ekki starfsmennirnir sem eru miðpunktur umræðunnar, hvað þá stéttarfélög sem í þessu tilfelli stoppuðu að hægt væri að leggja málið fram vegna þess að þau fá 1% af 7 þúsund milljónum eða 70 milljónir á ári. Samkvæmt lögum ber opinberum starfsmönnum að borga í viðkomandi stéttarfélag hvort sem þeir vilja vera í því eða ekki. Þetta snýst um 70 milljónir sem stéttarfélögin fá frá sálum sínum sem löggjöfin hefur gefið þeim. Mér finnst það fráleitt að svona frumvörp stöðvist vegna þess að stéttarfélögin ganga eftir rétti sínum eða því sem þau telja vera rétt sinn og fatlaðir þurfi að líða fyrir það.