139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal. Það er bagalegt að það sem hefur tafið að málið komi í þingið séu deilur um það hvaða stéttarfélag fái gjöld af viðkomandi starfsmönnum.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt sem kemur fram og fá frekari skýringar á því. Í fyrsta lagi það sem kemur fram í fylgigögnum með frumvarpinu þar sem talað er um að velferðarráðuneytið muni taka að sér eftirlit með framkvæmd laganna fyrst um sinn. Síðan er stefnt að því að setja á laggirnar almenna eftirlitsstofnun. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað felst í þessu. Ekki ætlar ríkið að setja upp sérstaka eftirlitsstofnun til þess að fylgjast með þessu í stuttan tíma? Má maður ekki ganga að því vísu að þetta verði innan ráðuneytisins?

Í öðru lagi það sem kemur fram um sameiginlegt endurmat milli ríkis og sveitarfélaganna á faglegum og fjárhagslegum árangri tilfærslnanna. Að ríki og sveitarfélög setjist niður eftir fjögur ár og fari yfir málið. Mér finnst þurfa að kveða fastar að orði um þetta. Ég þekki ekki samninginn og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Kemur skýrt (Forseti hringir.) fram í samningnum að sveitarfélögunum verði leiðréttur mismunurinn ef hann er fyrir hendi þegar menn fara að skoða hlutina?