139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:17]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok umræðunnar þakka fyrir góða og málefnalega umræðu og drepa á fáeina þætti sem hafa verið nefndir.

Í fyrsta lagi hafa menn nokkuð rætt um að málið sé seint fram komið og það skapi hættur. Eins og ég rakti í framsöguræðu og andsvörum við hana er það í sjálfu sér óhjákvæmileg afleiðing af ferlinu sem í gangi hefur verið. Það er mikilvægt að við munum að ferlið hefur í eðli sínu verið samningaferli milli ríkisins, sveitarfélaga og notenda þjónustunnar og hafa allir komið þar að málum. Af eðli málsins leiðir að það kemur fullbúið inn til þings vegna þess að að baki liggja fjölþættar samningaviðræður við alla sem hagsmuna eiga að gæta. Hins vegar hefur í tvígang verið gerð grein fyrir framgangi málsins í félags- og tryggingamálanefnd þegar þess hefur verið óskað af hálfu nefndarinnar. Ég á ekki von á öðru en sú nefnd sem er verkmikil og hefur sýnt mikla burði til góðra verka og sýnt mikla samstöðu í störfum á undanförnum mánuðum eigi eftir að vinna vel að málinu.

Varðandi svæðaskiptinguna, 8 þúsund manna svæðin, þá er gert ráð fyrir að þetta verði 13 svæði að viðbættum Hornafirði og Vestmannaeyjum sem eðli málsins samkvæmt teljast sérstök svæði. Þetta verði því 15 svæði í allt. Ef við horfum nokkuð raunsætt á hvað sveitarfélög þurfa að vera stór til að bera fjölþætta þjónustu þá held ég að þessi tala gefi okkur svolitla vísbendingu um hvað sé burðug eining til að reka fjölbreytta þjónustu.

Í dag eru 27 félagsþjónustur í landinu og á herðum þeirra hvílir að veita þjónustuna. Í lögunum er ábyrgð á þjónustunni felld á sveitarfélögin í hverju tilviki og það eru því félagsþjónusturnar sem reka þjónustuna og eru í rauninni ábyrgar fyrir henni. Þær þurfa að skýra gagnvart notendunum hvernig þjónustan er og standa ábyrgar gagnvart henni. Þetta er mikilvægt, sérstaklega út af þeim athugasemdum sem fram komu í máli hv. þm. Helga Hjörvars um hætturnar sem eru því samfara að búa til svæði sem ekki lúta beinu lýðræðislegu eftirliti, þ.e. það er enginn svæðisfulltrúi kjörinn af fólkinu á svæðinu til að sinna þessum verkefnum með sama hætti og bæjarfulltrúar eru kjörnir til að gegna því að skila þjónustu til íbúa í sveitarfélagi. Þó ég taki undir með hv. þingmönnum um þá hættu sem felst í því að búa til svæði sem taka verkefnin burt frá þeim sem hafa lýðræðislegt umboð, hvort heldur er sveitarstjórnarfulltrúar eða þingmenn, og færa þau yfir á einskonar millilag eða svæði sem ekki er beinlínis háð lýðræðislegu eftirliti, þá held ég að svarið til skemmri tíma litið sé að sveitarfélögin beri samkvæmt lögunum ábyrgð á þjónustunni og því að veita hana. Það verða þau sveitarfélög sem hafa burði til að reka félagsþjónustu sem munu fyrst og fremst sinna þjónustunni. Möguleikar þeirra til að veita góða þjónustu vaxa með þessari breytingu sem og breytingunni eftir ár þegar málefni aldraðra verða flutt. Félagsþjónusta í hverju sveitarfélagi verður töluvert breytt þegar öllu því er lokið.

Ég hef lagt á það áherslu frá því að ég byrjaði í félagsmálaráðuneytinu og allan þann tíma sem ég var þar, að þetta tvennt yrði að fylgjast að. Það væri fáránlegt að valda öllu þessu umróti með því að flytja þennan málaflokk en flytja ekki málaflokk aldraðra. Grundvallarforsendan fyrir að byrja á þessu væri að fara alla leið. Þetta gefur sveitarfélögunum færi á að endurhanna félagsþjónustu sína utan um öll þessi nýju verkefni.

Ég læt þessu lokið nú og vonast eftir að málið fái skjótan og vandaðan framgang í meðförum hv. félags- og trygginganefndar.