139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er nú svo lítil og léttvæg spurning að ég þyrfti varla tæpar tvær mínútur til að svara henni. Ég var raunar búinn að hvísla því að hv. þm. Oddnýju Harðardóttur í fjárlaganefnd hvernig við ættum að gera þetta allt saman.

Það sem ég vil segja af þessu tilefni er þetta: Við höfum og munum alltaf hafa þau sjónarmið uppi sem hv. þingmaður lýsir gagnvart einstökum tillögum í því hvernig á að auka tekjur eða hvernig á að skera niður gjöld. Meginlínurnar eiga hins vegar að liggja fyrir og á vera þokkaleg samstaða um þær og ég tel raunar að svo sé varðandi afkomu ríkissjóðs, þ.e. á hvaða tíma við ætlum okkur að ná heildarjöfnuði í ríkisfjármálum, þ.e. árið 2010.

Við gerðum tilraun til þess við fjárlagagerð fyrir árið 2010, sjálfstæðismenn, að efna í þetta samráð sem ég tel nauðsynlegt ef við ætlum að ná þokkalegum tökum á þessu. Ég tel það grundvallaratriði ef við eigum að ná tökum á þessu að við náum saman um það.

Við buðum upp í þann dans, sjálfstæðismenn, að skera niður og lækka ríkisútgjöldin í sameiningu. Við lögðum þessa tillögu fram við fjárlagagerðina og slík tillaga hafði ekki komið fram í mörg, mörg herrans ár ef þá menn minntust þess nokkurn tíma. Við buðum upp á það að lækka ríkisútgjöldin ef ég man rétt um 10–15 milljarða, en menn leiðrétta mig þá ef þetta er röng tala. (PHB: Átta.) Átta, er kallað hér framan úr sal, það gæti vel verið. Engu að síður er þetta töluverð fjárhæð. Því tilboði var því miður ekki tekið.

Ég er raunar þeirrar skoðunar að við eigum fullt af færum, áður en við förum að skera eða tæta niður grunnþjónustu eigum við (Forseti hringir.) fullt af færum til þess að létta okkur það verk. Ég kem væntanlega að því í síðara andsvari mínu.