139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 87/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

155. mál
[17:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um starf sitt ásamt fyrrverandi hv. þm. Birni Bjarnasyni og fleirum í Evrópunefndinni þá er alveg rétt að mikið var um það rætt í þeirri nefnd og þeirri skýrslu sem nefndin gaf frá sér hvernig væri m.a. hægt að bæta samskipti og samstarf Alþingis við Evrópuþingið. Í kjölfar þeirrar skýrslu unnum við sem þá áttum sæti í hv. utanríkismálanefnd mjög gott starf þar sem við lögðum til og kynntum skýrslu fyrir hæstv. þáverandi forseta þingsins um hvernig við gætum treyst aðkomu okkar að gerðunum þegar þær væru á mótunarstigi þannig að við hefðum áhrif.

Ég er ekki alveg sammála hæstv. ráðherra um að okkur skorti formlega aðkomu. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hafi orðað það nákvæmlega þannig en ég vil alla vega segja að okkur skortir ekki formlega aðkomu. Við höfum hana, reglurnar og heimildirnar eru allar til staðar til að beita okkur á réttum tíma. En af hverju gerum við það ekki? Vegna þess að það kostar tíma, það kostar peninga og við höfum ekki sinnt þessu. Allir þeir hv. þingmenn sem tóku þátt í þessari vinnu, ég man að núverandi hæstv. fjármálaráðherra átti sæti í utanríkismálanefnd á þeim tíma, voru sammála um að þetta væri okkur sem sitjum hér ekki til sóma vegna þess að við nýttum ekki öll þau tæki sem við hefðum. Ég er ekki sannfærð um að þetta muni eitthvað breytast með því að við göngum í sambandið þó að, eins og hæstv. ráðherra segir, við fáum rödd við borðið. Á meðan við höfum ekki einu sinni sýnt fram á að við nýtum þá rödd sem við höfum núna tækifæri til að beita óttast ég að okkur Íslendingum muni hvorki fjölga þannig að við hefðum meiri mannafla til að sinna þessu (Forseti hringir.) né að við tökum ákvörðun um að leggja meiri pening í þetta til að geta sinnt því sómasamlega.