139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

86. mál
[19:09]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Enn og aftur get ég verið sammála mörgu sem hv. þingmaður sagði en margt af því fólki sem ég þekki og hefur hvað mesta rökhugsun og getur sett mál sitt skýrt fram og þekkir öll þessi tæki, þarf ekki að vera siðvandaðasta fólkið sem ég þekki. Aftur á móti get ég sagt að mér finnst það fólk sem ekki hefur verið mikið í borgarsamfélagi, er ekki mikið menntað og hefur stritað í sveita síns andlits, oft vera það fólk sem hefur hæstu siðferðisstaðla sem ég hef séð.

Við erum kannski farin að velta fyrir okkur spurningum sem Rousseau velti fyrir sér. Erum við óskrifað blað siðferðilega þegar við fæðumst og er einfaldlega hægt að fylla blaðið út með því að kenna fólki þessi gildi eða fæðumst við með þau? Auðvitað getum við lært þau. Það er alþekkt að þeir sem eru — afsakið frú forseti, að ég skuli sletta — síkópatar og komast hvað best upp með það eru þeir sem geta falið siðferðisbresti sína hvað best á bak við þekkinguna sem þeir hafa. Þeir þekkja hvernig á að hegða sér, hvað þeir eiga að segja. Síðan haga þeir sér á þann hátt sem brýtur öll siðferðislögmál sem við mennirnir viljum setja okkur. Spurningin er: Með því að gefa fólki þessi verkfæri, með því að kenna þeim þetta, gætum við þá verið að stuðla að siðspillingu?