139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það eru fáir dagar eftir fyrir jólahlé og fáir fyrirspurnatímar eftir fram að þinghléi. Ég kem hér upp í allri vinsemd, frú forseti, til að gera athugasemdir við það að í þessum fyrirspurnatíma, sem nú var að ljúka, var hvorugur oddviti ríkisstjórnarinnar við umræðuna. Mér skilst að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki á landinu þannig að hann er löglega forfallaður en ég spyr hæstv. forseta hvort ekki hefði verið möguleiki að fá hæstv. forsætisráðherra til að svara vegna þess að við erum að fara að greiða atkvæði um fjáraukalagafrumvarpið rétt á eftir og ég geri ráð fyrir að hún ætli að vera hér. Ég tek líka eftir því að hún er með fyrstu fyrirspurn í undirbúnum fyrirspurnatíma að loknum þessum óundirbúna fyrirspurnatíma. Það eru fjölmörg atriði sem forsætisráðherra gæti upplýst okkur þingmenn milliliðalaust, t.d. um hvað líði (Forseti hringir.) tillögum um skuldavanda heimilanna.

Ég veit að þingmenn hefðu líka haft áhuga á að fá viðbrögð hennar við nýafstöðnum stjórnlagaþingskosningum þar sem við höfum saknað þess að fá þær fréttir í gegnum fjölmiðlana. Því geri ég þessa athugasemd, frú forseti.