139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

301. mál
[16:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil einmitt benda á að sú lending sem hér er verið að leggja til í sambandi við stéttarfélagaaðildarþáttinn byggir á því að menn eigi val, (Gripið fram í.) að það sé ekki þvinguð fram færsla manna gegn vilja þeirra út úr stéttarfélagi og yfir í annað. Það tel ég einmitt vera ein veigamestu (Gripið fram í.) rökin fyrir því að fallast á þessa lendingu, að þeir sem fyrir eru í stéttarfélögum eigi um það val sjálfir hvort þeir kjósa að vera þar áfram, en hins vegar er allt annað mál að nýráðningar gerist inn í það fyrirkomulag sem almennt gildir um starfsmenn hjá sveitarfélögum.

Varðandi stéttarfélagaaðildarmálin sem slík ætla ég ekki í stuttu andsvari að fara inn í djúpa umræðu um það. Fyrir því eru ákveðin rök sem ég veit að hv. þingmaður þekkir, það hefur ekki verið dregið í efa að fyrirkomulag í þeim efnum standist öll ákvæði. Þarna eru bæði skyldur og réttindi sem tengjast saman. Við erum hluti af hinum norrænu hefðum og norræna vinnumarkaði sem nokkurn veginn hefur tekist að verja þrátt fyrir ásókn ýmissa aðila sem hafa viljað grafa það í sundur, en hin sólidaríska stéttarfélagaaðild og þau réttindi og þær skyldur sem þar eru tengdar saman standast að mínu mati fyllilega öll mannréttindaákvæði.