139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[18:42]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt, með síðari breytingum, að því er varðar skattskyldu sjúkdómatryggingar.

Í frumvarpinu er lagt til að bætur úr sjúkdómatryggingum sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010 verði ekki skattlagðar. Forsaga þeirrar tillögu er sú að frá því að sala sjúkdómatrygginga hófst hér á landi um miðjan síðasta áratug síðustu aldar hefur af hálfu söluaðila slíkra trygginga verið farið með slíkar bætur sem skattfrjálsar væru.

Með úrskurði skattstjóra Reykjanesumdæmis, sem staðfestur var með úrskurði yfirskattanefndar og dómi héraðsdóms Reykjavíkur, var staðfest að bætur úr sjúkdómatryggingu væru skattskyldar. Þar sem misjafnt hefur verið hvort útgreiðslur bóta úr sjúkdómatryggingum hafa verið gefnar upp til skatts og skattyfirvöld þar af leiðandi ekki haft upplýsingar um bæturnar þykir rétt að taka af öll tvímæli þar um. Því er lagt til að útgreiðslur vátryggingabóta vegna sjúkdómatrygginga sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010 verði ekki skattlagðar. Tilgangurinn með því er að koma í veg fyrir það misræmi sem skapast hefur vegna þessa. Útgreiðslur vegna sjúkdómatrygginga sem keyptar eru eftir 1. desember 2010 verða eftir sem áður skattskyldar.

Ríkisskattstjóra er veitt heimild til þess að fella niður skattlagningu á greiðslur þessar að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni viðkomandi hafi skattlagning átt sér stað vegna sjúkdómatrygginga sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010. Ákvæðið hefur þannig í för með sér afturvirkni til ívilnunar og er ætlað að veita heimild til að fella niður þá skattlagningu sem fram hefur farið á grundvelli fyrri skattframkvæmdar.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.