139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

orð utanríkisráðherra Hollands um Icesave og ESB.

[15:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Eins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins spurðu mig um í júlí á síðasta ári, og ég svaraði þá, átti þetta símtal sér stað, það liggur algjörlega ljóst fyrir. Ég hef sagt frá því símtali hér í þinginu og reyndar hef ég verið spurður um það í fjölmiðlum líka. Ég átti marga fundi með fyrrverandi utanríkisráðherra Hollands og suma hávaðasama, hann var einna erfiðastur viðureignar allra þeirra utanríkisráðherra sem ég átti samskipti við.

Einnig er rétt að rifja það upp að hollensk stjórnvöld og hollenskir þingmenn höfðu uppi mjög sterk orð um Icesave og Evrópusambandið og rétt að nefna að í hollenska þinginu var tvisvar sinnum efnt til utandagskrárumræðna um tengsl Icesave og ESB því hollenskir þingmenn voru þeirrar skoðunar að ekki ætti að hleypa Íslendingum í gegnum það nálarauga sem þeir fóru í gegnum undir lok júlí á síðasta ári nema Icesave væri frágengið. Lagðar voru fram þrjár þingsályktunartillögur um sama efni í hollenska þinginu en eins og hv. þingmaður veit er Icesave enn ófrágengið. Ísland fór eigi að síður í gegnum nálaraugað á utanríkisráðherrafundinum sem var tilefni þessarar hringingar.

Ísland var samþykkt formlega síðar á leiðtogaráðsfundi Evrópusambandsins. Í kjölfarið kom fram skýrsla, mjög jákvæð, um Ísland. Það liggur því fyrir að af hálfu Evrópusambandsins virðast í verki engin tengsl hafa verið á milli umsóknarinnar og Icesave. Það liggur líka mörgum sinnum yfirlýst fyrir af hálfu leiðtoga Evrópusambandsins. Það breytir ekki hinu að Hollendingar höfðu aðra skoðun á því, margir hollenskir þingmenn, sumir orðnir ráðherrar í dag.

Um þá fundi sem hv. þingmaður spyr um er rétt að greina frá því að ég hef átt óformlegt spjall við nýjan utanríkisráðherra Hollands, Uri Rosenthal, (Forseti hringir.) þar sem m.a. var lítillega drepið á Icesave. (Forseti hringir.) Það kom fram að hollensk stjórnvöld eru mjög áfram um að ljúka þeim samningum núna.