139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:39]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Þetta frumvarp er hið seinna af tveimur svokölluðum bandormum en saman mynda þeir bandormar tveir kyrkislöngu um háls heimila og fyrirtækja í landinu. Frumvarpið skiptist í sex meginkafla. Það er hægt að segja að sá fyrsti snúi að málefnum fatlaðra, annar að skattalegum úrræðum í tengslum við fyrirtæki, þriðji að stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki, fjórði að breytingum á lögum um lífeyrissjóði, fimmti að breytingum á heimildum skattrannsóknarstjóra og síðan eru ýmis önnur mál.

Ef ég byrja á að fjalla aðeins um skattalega meðferð á eftirgjöf skulda lögaðila þá er hér að einhverju leyti komið til móts við gagnrýni sem við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd settum fram þegar upphaflegu lögin voru til meðferðar í efnahags- og skattanefnd. Að einhverju leyti gæti maður því sagt: Batnandi mönnum er best að lifa. En samt sem áður gera þessar breytingar, þrátt fyrir að vera til bóta, það að verkum að úr fyrirtækjunum eru teknir hvatar til hagnaðar. Hvernig gerist það? Það gerist þannig að þarna kemur upp einhvers konar frítekjumark, getum við sagt, á eftirstöðvum skulda. Á næstu fimm árum geta fyrirtækin, eftir að vera búin að nota öll möguleg rekstrartöp, fyrningar, niðurfærslur og annað slíkt, borgað upp í skattaskuldir sem hafa myndast vegna þessarar niðurfærslu. Ef þetta verður ekki gert upp eftir fimm ár er restin sett á jafnar greiðslur og þá sjálfsagt á skuldabréf til næstu fimm ára þar á eftir. Einhver fyrirtæki standa þá frammi fyrir því að möguleikar eru á því að allur hagnaður næstu tíu ára verði tekinn í skattgreiðslur sem hafa myndast vegna niðurskrifta á skuldum sem fyrirtækin réðu ekki við.

Þetta er nokkurt nýmæli vegna þess að lögaðilar hafa hingað til ekki þurft að búa við það að ríkið sæki í aflahæfi þeirra. Við höfum séð þetta með einstaklinga en aldrei áður með lögaðila. Hér er því raunverulega verið að meðhöndla lögaðila eins og einstaklinga svo að hægt verði að búa til það vandamál sem við erum að einhverju leyti að reyna að leysa með einstaklingana, það verður hægt að elta fyrirtækin út yfir gröf og dauða til að innheimta skattskuldir sem hafa myndast vegna þess að það hefur þurft að niðurfæra skuldir.

Í þessu er eitt lítið orð sem gerir það að verkum að sú hagræðing sem óhjákvæmilega þarf að eiga sér stað í íslenskri fyrirtækjaflóru tefjist hugsanlega eða hefjist ekki verði þetta að lögum vegna þess að skilyrði fyrir þessu er að ekki hafi orðið um sameiningu að ræða. Fyrirtæki sem þannig er ástatt fyrir hafa fengið felldar niður skuldir og skulda skatt út af því sem þau verða að borga kannski í 10 ár og á því tímabili geta þau ekki sameinast öðrum fyrirtækjum nema fyrirgera rétti sínum til þessa.

Þá kemur að næsta kafla, sem ég ætlaði að fjalla hér um, og það er stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki. Það er eins með það mál og með skattalegu meðferð á eftirgjöfinni, að verið er að leiðrétta hluti sem voru í frumvarpi sem sett var fram á vormánuðum sem við sjálfstæðismenn bentum á að ættu að vera rýmri, væru gallar á og annað slíkt, en ekki þótti ástæða til þess að hlusta á okkur. Ég býst við að mönnum þyki þægilegra að koma með málin aftur inn í Alþingi nokkrum mánuðum síðar og breyta lögunum.

Eitt er það sem er allt of algengt hér á hinu háa Alþingi og það er það að vinnsla á frumvörpum sem síðar verða að lögum er á þann veg að oft þarf að vera að leiðrétta hluti eftir á. Ætli það sé ekki búið að gera einar 18 breytingar á greiðsluaðlögun einstaklinga vegna þess að framkvæmdin hefur ekki staðist lög að einhverju leyti, en hér er verið að lagfæra hluti vegna þess að talið er að þeir standist ekki EES-samninginn. Eitt sem er gert, sem ég tel afar slæmt, er að hlutabréfaafsláttur er afnuminn. Hv. þm. Magnús Orri Schram kom inn á hugleiðingu sem ég hef verið með í kringum þetta, þ.e. að ef menn halda að þetta standist ekki einhvers konar EES-rétt er auðveldasta leiðin að útvíkka þetta nákvæmlega eins og við sjálfstæðismenn höfum bent á í efnahagstillögum okkar, að taka upp almennan hlutabréfaafslátt í landinu.

Hæstv. ráðherra talaði í andsvörum um að þessi afsláttur hefði nú ekki gefist vel og nefndi hrunið í því sambandi. Þetta er náttúrlega alrangt hjá hæstv. ráðherra. Hlutabréfaafslátturinn var innleiddur, að mig minnir, af Alþýðubandalaginu í ráðherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi fjármálaráðherra, sem nú er forseti lýðveldisins. Þessi hlutabréfaafsláttur stóð fram undir 2000 en var þá trappaður niður og var löngu horfinn áður en hlutabréfabólan myndaðist. Það er því alrangt hjá hæstv. ráðherra að einhver tengsl séu þar á milli, enda varð hrun íslenska hagkerfisins ekki vegna þess að venjulegar fjölskyldur gætu fengið nokkur þúsund króna afslátt á hlutabréfum, síður en svo. Ég mundi því mælast til þess, og mun leggja það til í hv. efnahags- og skattanefnd, að það verði skoðað að útvíkka þennan hlutabréfaafslátt þannig að hægt verði að halda þessu. Hin tvö gagnrýnisatriðin frá ESA er hægur vandi að laga á nokkrum dögum, að uppfylla skilgreiningar og annað slíkt.

Almennt vil ég segja það að þeim atriðum sem fela í sér útvíkkun á styrkjum, getum við sagt, eða stuðningi, hvatningu til nýsköpunarfyrirtækja, fagna ég hér.

Hér er aðeins minnst á breytingar á lífeyrislögum. Kollegi minn, hv. þm. Pétur H. Blöndal, ætlar að fjalla nánar um það. En almennt vil ég segja um það að fresta því að þessi prósenta sem að hámarki má vera munur á eignum og framtíðarskuldbindingum lífeyrissjóðanna — það er afar slæmt að þessu sé framhaldið vegna þess að ljóst er að lífeyrissjóðirnir eiga eins og er ekki fyrir framtíðarskuldbindingum. Hér er verið að ýta vandanum á undan sér. Einhvern tímann verður að taka á þessu vandamáli og kannski er það rétt mat hjá hæstv. fjármálaráðherra að ekki sé rétt að gera það núna heldur eigi að gera það þegar betur árar.

Þá komum við að ýmsum liðum sem hefur verið safnað undir heitinu Ýmsar breytingar. Þar ber fyrst að nefna vörugjald af ökutækjum. Í frumvarpinu er gert kleift að endurgreiða vörugjöld, allt að 100 þús. kr., vegna bifreiða sem fara í breytingu þannig að þær geti nýtt sér metan og þurfi þá ekki að brenna annaðhvort dísil eða bensíni. Ég hef verið mjög hugsandi yfir þeirri metanvæðingu sem menn tala um núna. Ekki eru mörg ár síðan allur bílaflotinn átti að vera drifinn með vetni, síðan var mikið talað um rafmagnsbíla og nú er talað um metanbíla.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Liggur fyrir eitthvert mat á því hvort þessi aðgerð sé þjóðhagslega hagkvæm, bæði með tilliti til umhverfismála og líka með tilliti til efnahagslegrar hagkvæmni? Má vera að afsláttur á einhverjum öðrum sviðum eða ríkisstyrkir á einhverjum öðrum sviðum mundu leiða til minni mengunar? Metan er, að mér skilst, unnið úr ruslahaugum og jafnvel úr fjóshaugum og öðru slíku en getur verið að hægt sé að knýja 200 þús. ökutæki með þessu? Ég hef svolitlar efasemdir um þetta vegna þess að ég hef ekki séð neitt liggja fyrir um hagkvæmnina út frá umhverfissjónarmiðum og út frá efnahagslegum sjónarmiðum.

Framlengja á tímabundnar undanþágur frá greiðslu stimpilgjalds vegna fasteignaveðskulda. Það er svo sem gott og blessað. Hið opinbera mundi gera vel með því að afnema með öllu stimpilgjöld eins og við sjálfstæðismenn höfum lagt fram í efnahagstillögum okkar. Það stafar af því að heimili geta þá notið betri kjara en ella vegna þess að þau festast ekki inni í lánum vegna stimpilgjalda. Stimpilgjöldin mynda þröskuld til að endurfjármagna þannig að það mundi verða góð aðgerð handa fullt af heimilum ef þau gætu endurfjármagnað sig án þess að borga stimpilgjöld, auk þess sem það mundi auka á samkeppni um lán og þar af leiðandi minnka kostnað fyrir heimilin í landinu. Ég hvet því, og mun gera það í efnahags- og skattanefnd, til þess að stimpilgjöld verði með öllu afnumin, og þá getur þetta ákvæði dottið út.

Þá kemur að gengishagnaði á innlánsreikningum. Það er ljóst, eins og við margvöruðum við, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þegar lögin voru sett á sínum tíma, að ekki er hægt að framfylgja þessu. En það var eins og með annað sem ég hef minnst hér á, það var ekki hlustað á það. Nú er komin ný útfærsla sem er að vísu til mikilla bóta en samt sem áður eru gallar á henni sem ég ætla að fjalla um í 2. umr. eftir umræðu í efnahags- og skattanefnd. En þarna er enn eitt dæmi um það þegar ekki er hlustað á viðvörunarorð bara af einhverju pólitísku stolti, getum við sagt.

Tími minn er búinn hér og ég held að ég sé nokkurn veginn búinn að fara yfir það sem ég ætlaði að fara yfir, þannig að það kemur ágætlega saman.