139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við verðum að fá að meta þetta allt saman út frá okkar grunngildum, hvernig við lítum á skattahækkanir og annað slíkt í því árferði sem nú er og því ástandi sem nú ríkir á íslenskum heimilum og í fyrirtækjum. En ég held að þetta hafi nú verið tiltölulega saklaust þannig að það hafi nú ekki kallað á sérstakt andrúmsloft. Aftur á móti sakna ég þess að ef þessar heimildir liggja fyrir — ég hef heyrt það trekk í trekk að ótrúleg auðæfi séu falin í metangasi á ruslahaugunum, að við getum knúið svo og svo marga bíla og þetta sé okkur svo hagstætt, við spörum gjaldeyri og annað slíkt. Vel hefði farið á því ef fyrir liggja svona miklar heimildir um þetta að gerð væri grein fyrir því í greinargerð með frumvarpinu. Ég hef ekkert nema orð sem maður heyrir og eru nær órökstudd. Það er ljóst að það kostar að breyta bifreiðunum og ríkið verður af skatttekjum. Það sem ég var að kalla eftir í ræðu minni var hvort fyrir lægi einhver samanburður á því að hægt væri að ná sömu markmiðum með minni kostnaði fyrir ríkissjóð á hagkvæmari hátt sem hefði betri umhverfisleg áhrif í för með sér. Ég hefði raunverulega viljað sjá þetta á blaði. Það hefði verið fínt að fá það í greinargerð. En hæstv. ráðherra getur kannski beitt sér fyrir því að efnahags- og skattanefnd fái minnisblað um málið þannig að hinir vantrúuðu verði trúaðir.