139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef maður lítur á tap heimilanna í hlutabréfum, sem er um 80 milljarðar og dreifist á 60 þús. heimili sem er að ég held 1,5 milljónir á hvert heimili að meðaltali, er skattlagningin ansi ósanngjörn. Ég er viss um að hún er sú hæsta í allri Evrópu ef maður leyfir sér að reikna það sem tapaðist sem 100% mínusvexti. Segjum að einhver hafi átt í banka hlutabréf upp á 10 milljónir og annað eins í þeim fyrirtækjum sem lifðu af, Össuri eða einhverju slíku, þá er viðkomandi búinn að tapa 10 milljónum af fjárfestingu sinni, helmingnum. Svo á að skattleggja arðinn af hlutabréfunum í Össuri með síhækkandi sköttum. Ég held að þetta sé með hæstu skattlagningu í Evrópu þó víða væri leitað. Það eru nefnilega ekki margir í öðrum löndum sem hafa lent í öðru eins áfalli og þeir Íslendingar sem fjárfestu í hlutabréfum hér.

Það er mikið verk að vinna. Ég ætla að biðja menn að hætta að tala illa um fjármagnseigendur eins og stöðugt er gert. Fjármagnseigandi er ljótur karl sem níðist á einhverjum en hann er í sjálfu sér heimili sem hefur neitað sér um neyslu, nurlað saman með ráðdeild og sparsemi einhverjum krónum til að leggja annaðhvort í banka eða kaupa hlutabréf fyrir, við það verður hann allt í einu ljótur fjármagnseigandi.