139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru að vísu nokkuð rýr og ég hvet hæstv. ráðherra til að svara eins hratt og mögulegt er þeim fyrirspurnum sem ég lagði fyrir hann aftur. Bara af því hæstv. ráðherra var ekki ljóst hvaða spurningum var ekki svarað vil ég vísa á 6. spurningu, þar stendur skýrt: Hverjir veittu Íbúðalánasjóði sérfræðiaðstoð o.s.frv.? Það er rannsóknarefni hvernig var hægt að misskilja þetta. Ég ætla nú ekki að fara fram á rannsókn á því sérstaklega, en ég vil bara fá svar við þeirri spurningu.

Það stenst heldur ekki að við höfum fengið að sjá þetta 3. desember af því þetta hafi ekki verið tilbúið fyrr. Eins og hv. þm. Íris Róbertsdóttir kom inn á voru tölurnar til í júní á þessu ári. Og það er svolítið sérstakt að heyra frá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni að það vanti tillögur þegar ekki liggja fyrir neinar forsendur fyrir hv. þingmenn til að taka afstöðu til. Alvarlegast fannst mér þó í þessari umræðu að nokkrir þingmenn átta sig ekki á vanda málsins. Við getum tekið umræðu um hvers konar húsnæðisfyrirkomulag við viljum hafa, en ef menn átta sig ekki á vanda Íbúðalánasjóðs og koma hingað upp og segja að hann standi það allt af sér, og ef menn vita ekki hvort á að setja 35 eða 45 milljarða í sjóðinn, þá átta menn sig ekki á stöðunni og það er bara mjög alvarlegt. Ég hvet hv. þingmenn sem þannig tala til að kynna sér málið betur.

Það er frétt að hæstv. ráðherra sé fylgjandi rannsókn á sjóðnum. Ég fagna því og ég held að við eigum að drífa í því því að þetta er ekki jafneinfalt og menn láta að liggja ef menn t.d. skoða svarið við fyrirspurn minni. Það er líka mál sem við verðum að ræða að hæstv. ráðherra er hér að leggja til, og ríkisstjórnin, að setja tugi milljarða í sjóðinn en er ekki með það á hreinu hvort við fáum þessa peninga aftur (Forseti hringir.) eða hvort þetta séu týndir fjármunir. Ég vek athygli á því að þetta slagar upp í, ef upphæðin er rétt, öll þau framlög sem við setjum í menntamál í þessum (Forseti hringir.) fjárlögum.