139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég vil þakka þátttakendum í þessari umræðu, kannski sérstaklega þeim hv. þingmönnum Jóni Gunnarssyni og Kristjáni Möller sem starfa utan umhverfisnefndar en hafa hér ausið okkur af sinni þekkingu og djúpa viti um tiltekin álitamál. Það er vel og það er það sem við í raun og veru óskuðum eftir með því að setja fram breytingartillögur í þeim efnum, reyndar ekki í því álitamáli sem hv. þm. Jón Gunnarsson minntist á áðan því að þar höfum við engar breytingartillögur við frumvarpstextann en ætlum að taka bæði þessi mál og það þriðja sem ég minntist á áðan í mannvirkjaumræðunni til umræðu og umfjöllunar milli 2. og 3. umr. Er sú umfjöllun þegar hafin eins og áður hefur komið fram. Það er þess vegna okkur að gagni að hafa hlýtt á hv. þingmenn í þessum málum.

Það má kannski segja að vegna þessarar stöðu sé þetta ekki góður vettvangur fyrir okkur til að svara eins og þar segir rökum sem hér koma fram því að við erum að velta þeim fyrir okkur og höfum ekki komist endanlega að niðurstöðu í nefndinni, hvorki öll né einstakir þingmenn, um þessi efni og áskiljum okkur rétt til að gera það við 3. umr. Ég vil þó aðeins segja nokkur orð í tilefni af nokkrum athugasemdum hér.

Í fyrsta lagi teljum við ekki eða ég — nú er rétt að hver tali fyrir sjálfan sig og ég tali fyrir mig og aðrir nefndarmenn fyrir sig þó að við höfum öll skráð nöfn okkar á nefndarálitið — tel ekki að um sé að ræða breytingar í flugvallamálinu og með breytingartillögunum sé ekki verið að taka neins konar vald af Flugmálastjórn heldur sé fyrst og fremst, ef nefndin kýs og þingið síðan í framhaldi af því að veðja á þann hest, verið að staðfesta það sem fram kemur í þeim lögum sem nú gilda, og ég minni á ummæli í athugasemdum með brunavarnalögunum frá 2000 sem hafa nú gilt í tíu ár. Valdmörk verða að ég held ekki óskýrari, en við þurfum að sjálfsögðu að athuga þær ábendingar vegna þess að við erum ekki að breyta yfir í neitt annað kerfi en verið hefur. Togstreita sem skapast út af þessum breytingartillögum held ég að hljóti að verða minni en sú sem verið hefur vegna þess að frá árinu 2000 hefur togstreita staðið yfir milli Flugmálastjórnar og flugaðila annars vegar og hins vegar Brunamálastofnunar og slökkviliðanna og þar með líklega, a.m.k. á köflum, þeirra ráðuneyta sem hér standa á bak við.

Líka þetta: Að mínum skilningi gerir Chigaco-samningurinn, 14. viðauki, kafli 9.2, ekki beinar kröfur um magn, fjölda, menntun, gerð búnaðar eða kaup á honum heldur er fjallað tiltölulega almennt, miðað við slíka texta, um þann viðbúnað sem á að vera til staðar. Það er síðan hvers ríkis, yfirvalda í hverju ríki, að sjá til þess að sá búnaður sé fyrir hendi á flugvöllum af tiltekinni tegund, frá alþjóðaflugvelli eins og í Keflavík og til frístundaflugvallar eða sjaldnotaðs flugvallar sem við þekkjum töluvert af hér á landi, og hvers konar búnaður á að vera á þeim stöðum. Það er minn skilningur, og ég er reiðubúinn að skipta um, að Flugmálastjórn sjái um að að lágmarki sé þetta fyrir hendi á þeim flugvöllum sem um ræðir samkvæmt Chigaco-samningnum, viðauka 14, kafla 9.2, en þær stofnanir sem við höfum sett til almennra eldvarna sjái um að gera magnkröfurnar.

Ég minni á, af því að rætt er um slökkviliðsstjóra sem séu 13 eða 15 hvað varðar flugvellina og sumir telja að þeir hugsi meira um öryggishagsmunina en góðu hófi gegnir, að það hefur jafnvel heyrst að þeir séu að skipuleggja starf á flugvöllum að einhverju leyti eftir stéttarhagsmunum starfsmanna sinna, sem ég sel ekki dýrara en ég keypti það, að ef svo væri eru kæruleiðir innbyggðar í lögin eins og þau eru nú, í 37. gr. Þar má kæra ákvarðanir sem teknar eru bæði til brunamálastjóra og til umhverfisráðherra. Það þýðir auðvitað að smákóngar í starfi slökkviliðsstjóra með frekju og gauragang ættu ekki að standast þau yfirvöld sem þarna eru fyrir hendi. Svo geta menn kvartað yfir því að það sé ekki þeirra ráðherra sem kært er til. Þannig er það nú víða í samfélagi okkar að mál eiga undir nokkra ráðherra en pólitíska kerfið er þannig að ef skjólstæðingar, það er nú kannski mál sem má ekki tala, eins ráðherra eru óánægðir með ákvarðanir annars ráðherra hefur það nú gengið þannig hingað til að þeir kvarta við „sinn ráðherra“ sem talar við hinn ráðherrann og með einhverjum hætti er komið á einhvers konar jafnvægi í þessu. Ég held að þetta sé ekki vandamál. Ég held að það sé ekki vandamál að bæði Flugmálastjórn annars vegar og Mannvirkjastofnun hins vegar fari, eins og verið hefur, með eftirlit og umsjón eldvarna á flugvöllunum.

Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir ræðuna en vil þó kannski gera athugasemd við orðalag, allt í góðu. Hann talar um að við ætlum að draga til baka tillögur okkar, nefndin. Hið rétta orðalag, þinglega orðalag, væri kannski það að við ætluðum að kalla þessar tillögur til 3. umr. þannig að við erum ekki að falla frá þeim með neinum hætti. En eins og ég hef tekið fram oft í dag áskiljum við okkur rétt til þess að skipta um skoðun, þó að það sé óvenjulegt hér í þinginu, þannig að tillögurnar geta breyst, þær sem koma fram í 3. umr., og þess vegna fallið brott þar sem um það er að ræða.

Annað smáatriði með fyrirtækið sem ég veit aldrei hvernig á að bera fram en er skrifað Isavia, það kvartar yfir því að hafa ekki fengið að gefa umsögn. Rannsóknir mínar á þessu máli eru þannig að einmitt nafnbreytingin kunni að hafa villt um fyrir umhverfisnefnd og starfsmönnum hennar þannig að þegar þeim aðilum sem síðast sendu inn umsögn á fyrra þingi var boðið að senda inn nýja umsögn eða viðbótarumsögn hafi það bréf farið til Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. og þess vegna ekki komist á póstfangið Isavia hf. og það sé grunnurinn undir þetta.

Hins vegar verður að minna á, þó að menn taki þetta sárt að fá ekki boð um að senda umsögn, að allir Íslendingar og að ég held allur heimurinn þess vegna geta sent inn umsögn um hvað sem er, sem varðar mál sem er til umfjöllunar í nefnd, hvenær sem er. Það er þá auðvitað undir því komið hvenær það er gert og hvernig það er gert hvort nefndin getur tekið það til meðferðar eða ekki, en þannig er það. Og þá kröfu verður að gera, og það sagði ég í morgun um leið og ég baðst forláts á þessum mistökum okkar, af svona lykilstofnunum eins og Flugmálastjórn og burðarfyrirtækjum eins og Isavia að þau fylgist með því sem Alþingi er að gera í þeirra eigin málaflokki. Bara fyrirgefið aftur, en ég ætlast til þess að þetta gerist í fyrirbærum af þessari stærð og með þetta hlutverk þó að ekki sé hægt að ætlast til þess að t.d. smáar sveitarstjórnir eða hagsmunaaðilar í fyrirtækjarekstri sem hafa mikið við geti staðið sig í þessu. Þetta er auðvitað smáatriði en ég vildi að þetta kæmi hér fram úr því að það var nefnt í ræðu.

Ég ætlaði að bæta því við, og gleymi sjálfsagt einhverju en við eigum 3. umr. eftir — „við eigum brekku eftir“, sagði Hannes Hafstein við hestinn sinn. Hér var talað um kostnaðarskýrslu frá Isavia þar sem talað er um rúmlega 300 millj. kr. Ég fékk þessa sundurliðun fyrst í morgun og við í nefndinni og ég hef ekki haft tækifæri til þess að fara í hana eða spyrja um hana, en þessi kostnaðarskýrsla er auðvitað tvíeggjuð. Annars vegar má segja að á grunni hennar sé verið að auka álögur á flugstarfsemi í landinu og þar með væntanlega flugfélögin og flugfarþega um 300 millj. kr. plús. Hins vegar má svo segja á grunni skýrslunnar að það sem vantar upp á öryggi flugfarþega á Íslandi, samkvæmt þeim kröfum sem brunavarnaeftirlitsaðili íslenska lýðveldisins gerir, séu rúmlega 300 millj. kr. Ég vona að sannleikurinn sé einhvers staðar þarna á milli en hann er eiginlega jafnalvarlegur í öfgunum báðum megin. Þetta vildi ég segja.

Ég held að það sé ekki meira. Eins og ég segi ætlum við að ræða þetta vandlega í nefndinni milli 2. og 3. umr. og ég hlakka til að bergja hér af brunni vitringa um flugmál við þá umræðu. Um fastklemmda fólkið, sem svo er nefnt með svolítið kjánalegum hætti, og stjórn á vettvangi þakka ég athugasemdir hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem eru mikils virði vegna þess að hann þekkir þau málefni mjög vel. Við erum að athuga þetta og ég get ekki flutt neinar sérstakar fréttir af því. Það verður hins vegar að segja að breytingin sem lögð er til í frumvarpinu, því að þetta er ekki tillaga nefndarinnar, er sú að þessi fastklemmdu tilvik bætast við tvö önnur tilvik þar sem slökkviliðsstjóri fer með stjórn á vettvangi, þ.e. við slökkvistarf, og síðan við mengunaróhöpp. Hér er því ekki um neitt einsdæmi eða einhverja nýjung að ræða. Það er sem sé verið að bæta við þessu tilviki þegar verið er með klippurnar að klippa fólk út úr bílum og út úr mannvirkjum, þó ekki mannvirkjum sem klemmast saman vegna náttúruhamfara eða annarra atvika sem varða almannavarnir. Hér er ekki verið að breyta meiru en þessu.

Hins vegar er það aftur þannig í þessu máli, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson rakti ágætlega, að þarna er togstreita sem hefur staðið í kerfinu milli aðila, stofnana, ráðuneyta, og við fáum inn á okkar borð í tengslum við ákaflega ólíkt mál sem eru neytendaframfarir í mannvirkja- og húsnæðismálum. Þessi tvö mál sem hér koma upp á, að ég bæti nú ekki því þriðja við úr mannvirkjafrumvarpinu, sýna okkur kannski að framkvæmdarvaldið, þannig að ég tali nokkuð gleitt hér úr ræðustóli löggjafarvaldsins, stendur sig ekki nógu vel, og ég tek þar undir með Birgi Ármannssyni, í því að gera út um deilur, að leysa hnúta eða höggva á þá þegar það þarf. Málin velkjast því um í einhvers konar styrjaldarástandi milli stofnana innan kerfisins jafnvel heilan áratug, eins og við höfum um dæmi hér, án þess að ráðherrarnir beiti sér í því, einn eða fleiri saman, að leysa þau. Þetta hefur þær afleiðingar að málin þarf allt í einu að leysa á þinginu, og ég tel að a.m.k. tvö af þessum álitamálum séu þannig að þingið geti ekki leyft sér annað en að leysa þau með einum hætti eða öðrum við aðstæður sem ekki eru heppilegar til slíkrar lausnar.