139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:16]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Umræðunni er ekki lokið, sagði hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og var þá að vitna til þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna ef ég hef skilið hann rétt. Það er rétt, henni lauk ekki. En flutningsmönnum og fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hefði verið í lófa lagið að móta tillögur upp úr þessari þingsályktunartillögu, breytingartillögur á fjárlagafrumvarpinu sem við hefðum átt að takast á um. Það er ekki annað sem ég er að biðja um en það. Í stað þess (Gripið fram í.) liggur við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins ekki fyrir ein einasta mótuð tillaga önnur en þingsályktunartillagan sem hér er lögð fram. Ég hef ekki orðið var við það. Það getur þó vel verið að hún sé til, ég tók fram áðan að ég sat ekki alla fundina, ég held að ég hafi misst af tveim fjárlaganefndarfundum í haust. Það getur vel verið að einhverjar tillögur hafi komið fram á þeim fundum en þær hafa þá farið fram hjá mér.

Ég hafði ekki tíma til að taka fram í lok ræðu minnar að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eiga hins vegar heiður skilið, vil ég segja, fyrir vinnu sína í fjárlaganefnd, fyrst og fremst mætingu í fjárlaganefnd. Ég viðurkenni það bara hér og nú að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa mætt allra fulltrúa best í fjárlaganefnd, verið þaulsætnir og með fullskipað lið innan nefndarinnar í umræðunni í allt haust ólíkt því sem hefur gerst í öðrum flokkum, þar á meðal í mínu liði, því miður. Þetta er mál sem þarfnast mikillar umræðu og nefndarmenn eiga að sinna því, að mínu mati, umfram annað. Ég ætla ekki að benda á neina sérstaka (Gripið fram í.) í því sambandi en heilt yfir — (Gripið fram í: Horfðu til vinstri.) Ég horfi alltaf til vinstri, já, og gengur vel með það.

Ég ætlaði að koma því þakklæti hér áfram og vekja athygli á því. (Forseti hringir.) Ég mun klára svarið í síðara andsvari.