139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[00:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarpið. Hv. þingmenn hafa farið mjög vel yfir gjaldahlið frumvarpsins í dag. Minna hefur farið fyrir tekjuhliðinni þó svo vissulega hafi einhverjir farið yfir hana. Ég ætla að nota ræðutíma minn til að fara fyrst yfir forsendur tekjuhliðar frumvarpsins og síðan tekjuhliðina sjálfa. Þá á ég sérstaklega við þá skatta sem áætlað er að hækka.

Í júní gerði Hagstofan ráð fyrir að hagvöxtur á þessu ári yrði 3,2%. Ný þjóðhagsspá, endurskoðuð frá því í nóvember, gerir nú ráð fyrir að hagvöxtur verði 1%. Þetta hefur gríðarleg áhrif á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins og reyndar á útgjaldahliðina líka. Þessi samdráttur stafar fyrst og fremst af því að nú er ekki lengur gert ráð fyrir framkvæmdum í Helguvík árið 2011. Gert er ráð fyrir að innlend eftirspurn muni dragast saman um 1,4 prósentustig og útflutningur um 0,8 prósentustig frá fyrri spá. Drifkraftar hagvaxtar virðast því vera afar veikir á næsta ári og lítið má út af bregða til þess að allt fari á verri veg. Fjárlagafrumvarpið virðist að þessu leyti hvíla á hnífsegg.

Athygli vekur að þrátt fyrir að þjóðhagsforsendur séu nú mun verri en í júní er því spáð að atvinnuleysi dragist saman um 1% frá þeirri spá. Þetta gerist þrátt fyrir að fjárfesting minnki um 10,3% frá því sem var í spánni. Enn meiri athygli vekur að kaupmáttur breytist óverulega og er það vegna hagstæðari verðlagsforsendna. Gert var ráð fyrir í spá Hagstofunnar að meðalverðbólga yrði 3,5% á næsta ári, en nú er gert ráð fyrir að hún verði einungis 2,3% sem er gleðilegt. Það er mat mitt að spáin gangi tæpast upp. Verri þjóðhagsforsendur ættu að öllu jöfnu að leiða til meiri samdráttar í eftirspurn en gert er ráð fyrir.

Áhrif lakari þróunar efnahagsstarfseminnar eru mikil á ríkissjóð. Mat Samtaka atvinnulífsins er að breyttar þjóðhagsforsendur leiði til allt að 6,1 milljarðs verri afkomu ríkissjóðs en ella. Spá OECD er svartsýnni á hagvöxt en spá Hagstofu Íslands, en hagvaxtarspá stofnunarinnar fyrir næsta ár hljóðar upp á 1,5% sem er þó nokkuð lægri en spá Hagstofunnar. Vegna þessa metur OECD það svo að tekjur ríkissjóðs séu ofmetnar um 15 milljarða á næsta ári í fjárlagafrumvarpinu. Þá spáir Evrópusambandið að hagvöxtur verði einungis um 0,7% á næsta ári sem er rétt tæplega það sem ný spá Íslandsbanka gerir ráð fyrir. Ef sú spá rætist er ljóst að ástand ríkisfjármála verður mun verra en búist er við, skatttekjur verði allt að 27 milljörðum lægri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Að öllu samanteknu mun hagvöxtur setja tekjuáætlun úr skorðum og þar með alla tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Bregðast verður við verri horfum ef halda á áætlun um viðsnúning í fjármálum sem kemur fram í samningi íslenska ríkisins eða fjármálaráðuneytisins, Seðlabanka og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það verður að gera þetta með því að leggja áherslu á að breikka skattstofnana. Auknar skattálögur eða enn frekari niðurskurður mun festa efnahagslífið enn frekar í þeim vítahring sem það er í núna. Því er rétt að vara við að gripið verði til vanhugsaðra ráðstafana til þess að ná tökum á ástandinu.

Það er einnig lífsnauðsynlegt að leggja áherslu á að viðhalda framleiðslugetu hagkerfisins. Langtímaáhrif af minnkandi framleiðslugetu íslenska hagkerfisins virðast vera vanmetin. Undanfarin tvö ár hafa 22.500 störf tapast á vinnumarkaði, um 13.000 einstaklingar eru nú atvinnulausir. Hver atvinnulaus leiðir til um 3 milljónum verri afkomu ríkissjóðs vegna bótagreiðslna og minni skatttekna. Heildaráhrif á ríkissjóð vegna atvinnulausra gæti því orðið allt að 39 milljörðum. Um 9.500 einstaklingar hafa horfið af vinnumarkaði. Þeir hafa sest í helgan stein, horfið á örorkubætur, flust búferlum til annarra landa eða farið í skóla. Minni fjárfesting og minnkandi vinnumarkaður hefur óhjákvæmilega í för með sér minni framleiðslugetu íslenska hagkerfisins til lengri tíma. Því er líklegt að óbreyttu að langtímahagvöxtur verði minni en ef hægt hefði verið að viðhalda framleiðslugetu hagkerfisins og þar með verði grunnur ríkisrekstrar mun veikari en menn hafa hingað til viljað viðurkenna. Jafnframt er hér komin skýring á af hverju atvinnuleysi hefur ekki orðið jafnmikið á Íslandi og spáð var haustið 2008. Fólk hefur í miklum mæli horfið af vinnumarkaði í stað þess að verða atvinnulaust. Þetta er ógnvænleg þróun og full ástæða til að leita allra ráða til þess að snúa henni við.

Ríkisstjórnin hefur valið að bregðast við því ástandi sem nú er uppi á tvennan hátt: Annars vegar með niðurskurði á ríkisútgjöldum og hins vegar með skattahækkunum. Þar sem ég fjalla um tekjuhliðina mun ég einbeita mér að tekjuöflunaraðgerðum sem ríkisstjórnin hyggst fara út í.

Það á að hækka fjölmarga skatta auk þess sem á að leggja nýjan skatt á, svokallaðan bankaskatt. Ef við byrjum á fjármagnstekjuskattinum er ætlunin að hækka hann úr 18% í 20%, það er áætlað að hækkunin muni skila um 1,5 milljörðum í auknar tekjur fyrir ríkissjóð á næsta ári. Þetta er þriðja hækkun þessa skatts á örskömmum tíma. Skatturinn var hækkaður úr 10% í 15% þann 1. janúar 2009, í 18% þann 1. janúar 2010 og ætlunin er að hækka hann í 20% 1. janúar 2011. Skatturinn hefur því tvöfaldast á einungis tveimur árum ef hækkunin sem nú er lögð til nær fram að ganga. Það er einmitt eitt af grundvallarlögmálum skattahagfræðinnar að skatthlutföllum skuli halda sem stöðugustum til að halda óvissu um skattframkvæmd í lágmarki. Þrjár hækkanir á tveim árum getur varla talist skynsamlegt út frá því sjónarmiði.

Eins og framkvæmd fjármagnstekjuskatts er í dag er hann lagður á nafnávöxtun fjármagns, þ.e. á raunvexti að viðbættri verðbólgu. Þetta leiðir til þess að þegar verðbólga er há eins og verið hefur undanfarin ár heggur skatturinn í höfuðstólinn og höfuðstóllinn rýrnar að raungildi. Sem dæmi um það er ef raunvextir eru 1% og verðbólga 6% á ársgrundvelli, nafnvextir eru þá 7%, þá leiðir 20% fjármagnstekjuskattur sem lagður er á nafnvexti til þess að höfuðstóllinn rýrnar um 0,33% að raunvirði. En ef verðbólgan er hins vegar 20% rýrnar höfuðstóllinn um 2,53% að raunvirði. Þetta virðast ekki vera háar tölur við fyrstu sýn. Með tímanum er ljóst að stöðugt stærri hluti hefur verið tekinn í burtu af raunvirði höfuðstólsins. Það má e.t.v. varpa þeirri spurningu fram hvort það geti verið að slík skattlagning höfuðstóls sé brot á einhvers konar eignarréttarákvæðum þar sem ekki er um skattlagningartekjur að ræða heldur er verið að taka af höfuðstól. En þar sem þetta er almennt, á við alla hópa samfélagsins, yrði það nú sennilega ekki dæmt sem brot á eignarrétti. Samt sem áður er rétt að íhuga að við erum komin ansi nálægt því að skerða eignarrétt með þessu. Viturlegra væri ef menn vilja vera með fjármagnstekjuskatt að skattleggja einfaldlega raunvaxtahluta fjármagnsaukningarinnar, ekki verðbólguna, vegna þess að það eina sem verðbólgan eða verðbæturnar gera er að viðhalda raunvirði höfuðstólsins.

Háar fjármagnstekjur leiða til þess að þjóðhagslegur sparnaður minnkar vegna minni arðsemi, sem aftur leiðir til þess að uppbygging fjármagnsstofnsins verður hægari en ella og þar með hagvaxtar til lengri tíma, lífskjör o.s.frv. og tekjugrunnur ríkissjóðs. Sparifjáreigendur flýja með sparifé sitt í eignir sem ekki eru skattlagðar eða eignir sem liggja utan hefðbundinna markaða. Jafnframt er hætta á að fjármagn streymi úr landi ef gjaldeyrishöft verða afnumin. Háir skattar á fjármagn leiða því til þess að erfiðara verður en ella að afnema gjaldeyrishöft. Það er því mikilvægt að hverfa af braut síhækkandi skatta á fjármagn þannig að þjóðhagslegur sparnaður minnki ekki og ekki komi fram vandamál eins og t.d. með afnám gjaldeyrishafta, auk þess sem það er ekkert annað en réttlætismál að eingöngu raunvaxtahluti fjármagnsteknanna sé skattlagður.

Þá er lagt til að tekjuskattur lögaðila verði hækkaður, þ.e. lagt er til að skattar á hagnað fyrirtækja verði hækkaðir í annað sinn á rétt rúmu ári úr 18% í 20%. Þetta er þvert á viðbrögð þeirra þjóða sem verst hafa orðið úti í fjármálakreppunni, þjóða þar sem stjórnmálamenn skilja að ekki er hægt að skattleggja sig út úr kreppu. Þannig hafa Írar lýst því yfir að ekki komi til greina að hækka tekjuskatt fyrirtækja, en hann er nú 12% þar í landi. Írar hafa þvert á móti auglýst í alþjóðlegum miðlum að þeir muni ekki hækka þessa skatta í þeirri von að laða að erlent fjármagn. Þá hyggjast Grikkir lækka tekjuskatt fyrirtækja til þess að freista þess að erlend fjárfesting aukist. Meðalskatthlutfall fyrirtækja í ESB er nú 23,5%. Með því að hækka tekjuskatt fyrirtækja færast Íslendingar nær því sem gengur og gerist í Evrópu og missa með því forskot sitt hvað varðar skattalegt hagræði. Þetta mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir erlenda fjárfestingu og lýsir raunverulega vel þeirri helför sem ríkisstjórnin er í þegar kemur að skattamálum. Hækkun skatta á fyrirtæki leiðir til þess að arðsemi þeirra minnkar. Þannig letja háir skattar fjárfestingar langtímaáhættufjárfesta sem leiðir til þess að sneitt verður hjá áhættufjármagni sem aftur leiðir til minni fjárfestingar og færri starfa, þar af leiðandi minni tekna fyrir ríkissjóð og aukinna útgjalda. Þetta er þvert á það sem stjórnvöld segjast stefna að, en Grikkir og Írar skilja.

Með því að reikna út samband tekjuskatts lögaðila og verðmæti hlutafjár í fyrirtækjum er hægt að leiða fram athyglisverðar staðreyndir. Hækkun tekjuskatts úr 10% í 20%, eins og gripið var til hér á Íslandi, leiðir til þess að verðmæti hlutafjár lækkar um 11%. Ef fjármagnstekjuskattur er síðan hækkaður úr 15% í 20% lækkar hlutafé vegna þess um 5% til viðbótar. Hækkun á tekjusköttum fyrirtækja og fjármagnstekjur lækka því verðmæti hlutafjár um 16%. Þessi lækkun endurspeglar minni arðsemi hlutafjár og minni hvata til að fjárfesta í atvinnustarfsemi, sem aftur endurspeglast í minni fjármagnsstofni eins og ég talaði um áðan, minni hagvexti og að lokum lakari lífskjörum og verri afkomu ríkissjóðs. Þetta eru afleiðingar skattstefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ein af grunnsetningum alþjóðahagfræðinnar styður þetta enn betur. Sú setning er sett fram af hagfræðingnum Arnold Harberger um áhrif skattlagningar hagnaðar fyrirtækja á þjóðarhag. Rannsókn sem Martin Feldstein gerði sýnir með því að nota niðurstöður Harbergers að landsframleiðsla á mann minnkar um 15–40% ef skattur á hagnað fyrirtækja er á bilinu 35–50% til lengri tíma. Minni landsframleiðsla á mann leiðir til verri lífskjara þjóðfélagsþegnanna til langs tíma. Nú eru skattar á hagnað umtalsvert lægri hér á landi en í rannsókn Feldsteins. En vísbendingarnar eru ótvíræðar eins og þeir útreikningar sem ég rakti áðan gefa til kynna. Hækkun skatta á fyrirtæki leiðir til lægri landsframleiðslu, verri lífskjara og lægri skatttekna fyrir ríkissjóð. Þetta er megininntakið í þeirri gagnrýni sem við sjálfstæðismenn höfum verið með á skattstefnu ríkisstjórnarinnar og hvers vegna eigi að hverfa frá henni. Ríkisstjórnin ætti mun fremur að horfa til viðbragða Grikkja og Íra þegar kemur að skattlagningu fyrirtækja. Þeir skilja að ekki er hægt að skattleggja sig úr kreppu, en þeir skilja líka að það er hægt að skattleggja sig í kreppu.

Þá kemur að næsta skatti — af skattahækkunum er af nógu að taka hér: Það er hækkun á auðlegðarskatti. Fyrsti skattur Íslandssögunnar var skattur á fjármagn, eignarskattur eða auðlegðarskattur eins og hann heitir á máli Samfylkingarinnar. Þetta var tíundin. Árið 2004, eftir rúm þúsund ár, var fjármagnsskattur loksins lagður af á Íslandi, sá ósanngjarni skattur. Skatturinn var lögleiddur á ný í lok árs í fyrra. Hann var settur í nýjar umbúðir og endurskírður auðlegðarskattur. Hann var ákvarðaður 1,25% á hreinar eignir einstaklinga yfir 90 milljónir og 120 milljónir hjá hjónum. Nú er lagt til að skatturinn verði hækkaður í 1,5% og eignamörkin lækkuð í 75 milljónir hjá einstaklingum og 100 milljónir hjá hjónum. Áætlað er að skatturinn skili í heild 5.200 milljónum og þar af komi 1.500 milljónir til vegna hækkunar skatthlutfalls og lækkunar eignamarka.

Það er fróðlegt að velta því fyrir sér við lækkun eignamarka hvort fleiri þingmenn komist í þann hóp að borga auðlegðarskatt, hvort það verði þá ekki bara þingmenn Vinstri grænna sem greiði auðlegðarskatt heldur bætist kannski einhverjir sjálfstæðismenn við. (Gripið fram í: Það er langt í það.) Það er langt í það hjá mér.

Eignarskattur er ólíkur öðrum sköttum að því leyti að hann leggst á eignir en ekki tekjur eins og nafnið ber með sér. Þannig er skatturinn ígildi eignaupptöku og því er hann jafnvel talinn brjóta í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Nýverið aflögðu stjórnvöld í Þýskalandi og Svíþjóð einmitt eignarskatta með þeim rökum að þeir brytu hugsanlega lögvarin réttindi borgara landanna. Það er því eftir öðru að ríkisstjórnin skuli innleiða eignarskatta á ný. (Gripið fram í.) Líklegt er að einhverjir borgarar muni láta reyna á rétt sinn og er því rétt að vara við þessari tegund skattlagningar. Mögulegt er ef dómsmáli lyki með því að dæmt yrði á þann veg að eignarréttarákvæði hefðu verið brotin að ríkið yrði dæmt til að endurgreiða eignaupptökuna, 8.900 milljónir, auk vaxta og hugsanlega skaðabóta. Þannig að það horfir í ný ríkisútgjöld.

Eignarskattar hafa verið á undanhaldi í Evrópu undanfarna áratugi. Er það rakið til þess að þeir leiða til fjármagnsflótta, eru dýrir í framkvæmd miðað við þær tekjur sem þeir gefa og leiða til skattabjögunar. Alvarlegasta gagnrýnin fyrir utan eignaupptöku lýtur að því að með því að skattleggja eignir flytji fólk heimili sitt til annarra landa sem ekki innheimta slíka skatta. Mörg nýleg dæmi eru um að efnaðir Íslendingar flytji til Sviss, en þar eru ekki innheimtir eignarskattar auk þess sem þar geta efnaðir einstaklingar samið um tekjuskatta sína. Tæplega 1% þeirra sem greiddu auðlegðarskatt fluttu heimilisfesti sína frá Íslandi fyrstu 11 mánuði ársins. Þetta er að vísu lægra hlutfall en flutti frá Íslandi þegar íbúafjöldi í heild er skoðaður en frá sjónarmiði tekjuöflunar er efnaður einstaklingur mun verðmætari en fátækur vegna þess að hann borgar hærri skatta. Því er hér um alvarlega þróun að ræða og líklegt að hækkun auðlegðarskattsins muni hrekja enn fleiri efnaða Íslendinga úr landi í framtíðinni.

Þá kemur að erfðafjárskatti. Það stendur til að tvöfalda hann, að hann fari úr 5% í 10%. Skatturinn var einfaldaður mjög mikið fyrir nokkrum árum. Það sem er líklegt að muni gerast núna með erfðafjárskattinn er að margir ákveði að greiða erfingjum sínum arfinn fyrir fram áður en að gildistöku kemur og þar af leiðandi muni skattstofnar jafnvel rýrna. Það sem er mikilvægt er að þetta mun leiða til þess að þjóðhagslegur sparnaður minnkar sem, nákvæmlega eins og ég hef rakið, kemur niður á fjármagnsstofninum og hagvexti til lengri tíma litið.

Þá er það áfengis- og tóbaksgjöld. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir verðteygni eftirspurnar þegar gjöld á vöruþjónustu sem keypt er á frjálsum markaði eru ákvörðuð. Bæði dregur fólk saman neyslu sína þegar verð hækkar og leitar í staðkvæmdarvörur. Miklar verðhækkanir á víni hafa þannig leitt til þessara áhrifa. Sala á vodka hefur t.d. dregist saman um 20% eftir miklar verðhækkanir á árinu. Flaska af vodka kostar núna á bilinu 6.000–7.000 kr. í verslunum ÁTVR. Neysla á landa er talin hafa aukist mikið, en flaska af honum er talin kosta á bilinu 2.000–2.500 kr. á svörtum markaði. (Gripið fram í.) Fólk hefur því minnkað neyslu sína á vodka og skipt yfir í landa. Þetta eru talandi dæmi um verðteygni eftirspurnar og eftir situr ríkissjóður með minni tekjur þrátt fyrir að hafa hækkað gjöldin í þeirri von að fá meiri tekjur. Einfalda ástæðan er sú að ríkisstjórnin skilur ekki verðteygni eftirspurnar.

Hér er enn meira sláandi dæmi. Þann 1. janúar síðastliðinn var tóbaksskattur hækkaður um 10%. Helstu rökin fyrir þeirri hækkun voru þau að það þyrfti að stoppa í fjárlagagatið. Tóbaksgjaldið var hækkað um 10% en það sem af er ári hefur sígarettusalan minnkað um 12,8%, en sígarettusala tekur til um 92% af tóbakssölu ÁTVR. Þessi söluminnkun á sígarettum hefur haft eftirfarandi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð:

1. Innheimt tóbaksgjald af sígarettum hefur lækkað um 147 milljónir.

2. Álagning ÁTVR á sígarettur hefur lækkað um 74 milljónir.

3. Virðisaukaskattur á sölu á sígarettum hjá ÁTVR hefur lækkað um 124 milljónir.

4. Hagnaður innflytjenda vegna sölu á sígarettum hefur lækkað um 41 milljón sem leiðir til lægri tekjuskatts sem þeir aðilar greiða til ríkissjóðs, eða um 7,4 milljónir.

5. Hagnaður smásala af sölu á sígarettum hefur lækkað um 136,7 milljónir sem leiðir til lægri tekjuskatts sem þeir aðilar greiða til ríkissjóðs, sem gerir 24,6 milljónir.

Samtals leiddi hækkun tóbaksgjaldsins, sem átti að skila ríkissjóði auknum tekjum, til 413 milljóna taps fyrir ríkissjóð. Þetta er nákvæmlega eins og með vodkann, sem ég nefndi áðan, vegna þess að menn hafa gleymt að gera ráð fyrir verðteygni eftirspurnar og tekjuáhrifum.

Kolefnisgjald. Áætlað er að kolefnisgjald verði hækkað og það verði hækkað um svo mikið sem 1 milljarð. Menn segja að þetta sé gert til þess að laga okkur betur að kolefniskvótunum í Evrópu. Eins og kolefnisgjaldið er núna nemur það um 50% af markaðsverði kolefniskvóta og ætlunin er að hækka það í 75%. Þetta hækkar verð á bensíni um einn milljarð fyrir heimilin og fyrirtækin sem leiðir til þess að dregur úr efnahagsstarfseminni og ráðstöfunartekjur fólks verða minni.

Síðan er einn enn skattur hér, vörugjöld á bifreiðar og bifreiðagjald. Ég hef fjallað um þetta áður í ræðu. Þessi vörugjöld eiga að hvetja fólk til að fjárfesta í ódýrari og minni bifreiðum sem menga minna. Vörugjöld á minni bílum munu því lækka en hækka á öðrum. Ég hef bent á það áður að þetta sé óhagkvæm leið til þess að reyna að minnka CO2-útblástur. Eðlilegast væri að setja þetta beint inn í bensínverðið vegna þess að ef Toyota Yaris, sem lækkar í verði við þetta, er keyrður yfir 31.000 km mengar sá bíll meira en Pajero sem hækkar mest ef hann er ekinn 20.000 km. Þannig að besta leiðin til þess að ná til þeirra bíla sem menga mest er að setja þetta gjald inn í bensínverðið. Auðvitað er ég á móti því. Það er annað mál. Það var útfærslan sem ég var að tala um.

Að lokum er vert að minnst á eitt, fyrir utan að það eru fjölmörg önnur gjöld sem hækka sem ég ætla ekki að tíunda hér. Mikilvægt er að minnast á gjöld sem eru látin hækka eftir verðlagsforsendum, þar er um raunhækkun að ræða. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að verðlag hækki um 4% þrátt fyrir að ný þjóðhagsspá geri ráð fyrir að það muni hækka um 2,3% og því er um 1,7% raunhækkun að ræða á öllum gjöldum á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Þetta leiðir til aukinnar byrðar á landsmenn, byrðar sem stjórnvöld dylja í búningi verðlagshækkana sem ekki verða samkvæmt spám.

Til að taka þetta allt saman er ljóst að ríkisstjórnin er á sömu leið til glötunar og hún var í síðustu fjárlögum, skattar eru hækkaðir sem heftir skattstofnana, dregur úr atvinnustarfsemi, minnkar fjárfestingu, leiðir til minni hagvaxtar, versnandi tekjumöguleika fyrir ríkissjóð og versnandi lífskjara í landinu. Þetta er skattstefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.