139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins.

231. mál
[11:45]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er enginn sérfræðingur um Skógrækt ríkisins og þaðan af síður um handverkshefð á skrifstofu Skógræktar ríkisins á Héraði. Almennt vil ég hins vegar segja að ég tel að það sé misskilningur og óráð að flytja miðstöðvar stjórnsýslustofnana frá Reykjavík sem er miðstöð stjórnsýslu á landinu og heitir þess vegna höfuðborg Íslands. Vissulega eru fjarskipti núna önnur en áður en persónuleg nánd og fundarsókn þar sem menn mæta sjálfir og ekki í gegnum raftæki er mjög mikils virði í öllu starfi, að ég minnist ekki á nálægð við bókasöfn og upplýsingakost af ýmsu tagi. Ég held að almennt hafi þetta gefist illa, bendi t.d. á Jafnréttisstofu á Akureyri, og flytja eigi aftur hingað þær stöðvar sem hafa flust út á land. Ég tel að landsbyggðin eigi að þróa með sér opinbera og einkalega starfsemi sem byggist á þeim kostum og gæðum sem til staðar eru á hverjum stað.