139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

sameining lífeyrissjóða.

241. mál
[12:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við skuldavanda heimilanna var aðeins komið inn á málefni lífeyrissjóðanna og þar virtist koma fram viljayfirlýsing um að fara í þá endurskoðun sem hæstv. fjármálaráðherra talaði um. Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum lífeyrissjóðina á Íslandi, sérstaklega stöðu opinberu lífeyrissjóðanna. Ég hef heyrt að það séu 500 milljarðar kr. sem vanti nú inn í B-deildina og skuldir sveitarfélaganna eru gífurlegar líka vegna lífeyrisskuldbindinga. Ég hef heyrt að menn tali um að það sé svo mikilvægt að jafna réttindin þannig að ekki sé verið að færa réttindi opinberra starfsmanna niður á við, heldur færist frekar allir upp á við. Það þarf einmitt að ræða málið, ekki bara í nefndum úti í bæ heldur á þingi líka, hvernig við sjáum fyrir okkur að gera það.

Ég bendi líka á það frumvarp sem ég hef lagt fram og er 1. flutningsmaður að, (Forseti hringir.) og hef í hyggju að leggja aftur fram á þessu löggjafarþingi, þar sem einmitt er talað um beina kosningu stjórnarmanna í lífeyrissjóðina.