139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

kostnaðargreining á spítölum.

233. mál
[13:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í umræðuna. Ég held að afar mikilvægt sé, eins og kemur fram í máli hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar, að kostnaðargreining fari fram á spítölum úti á landi. En ég held það sé ákveðinn misskilningur að halda að það sé endilega dýrara að meðhöndla einfalda hluti á Landspítalanum en úti á landi. Ástæðan er sú að kostnaðargreining hefur farið fram á Landspítalanum. Þar vita menn hvað hlutirnir kosta og menn liggja ekki úr sér veikindi á Landspítalanum heldur eru menn eins lengi þar og veikindi þeirra krefjast. Þegar það tímabil er liðið fara þeir í ódýrari úrræði, til að mynda á sjúkrahótel og annað.

Aðstæður úti á landi ráða því hins vegar oft að ekki er hægt að klára meðferðina á sama hátt úti í bæ eða í héraði eins og hægt er á höfuðborgarsvæðinu. Þessa hluti þarf að kostnaðargreina og ég er ekki viss um (Forseti hringir.) að sú kostnaðargreining verði stóru sjúkrahúsunum í óhag.