139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

framtíð íslensks háskólasamfélags.

[13:26]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hæstv. menntamálaráðherra og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Tilgangurinn með umræðunni er einmitt að leiða fram sýn okkar á háskólasamfélagið og hvert við viljum sjá það stefna í framtíðinni. Ég er ánægður að heyra að hæstv. menntamálaráðherra er enn þá að leita leiða til þess að bæta starfið. Hún talar um aukið samstarf og ég fagna því að hún telji að einkareknu háskólarnir eigi að koma þar að. Ég tel það mjög mikilvægt.

Hins vegar nefndi hún í ræðu sinni að niðurstaða skýrslunnar gæti leitt til þess að það þyrfti að sameina einhverja skóla ef það yrði talið hagkvæmt og mig langar að spyrja hana aðeins út í þau orð. Mig langar til þess að heyra betur hver stefna hennar er vegna þess að jafnvel þótt það geti verið hagkvæmt í tölum og peningum getur vel verið að hagsmunir þjóðarinnar liggi annars staðar. Ég hef talið hagsmuni þjóðarinnar liggja einmitt í því að hafa háskóla úti á landsbyggðinni. Í umræðunni hefur verið nefnt að aðgengi allra landsmanna verði að vera tryggt. Ég held að þessir háskólar hafi sýnt það og sannað að þeir hafa mótað sérstöðu sína á grundvelli sjálfstæðis síns. Það er nokkuð sem við verðum að varðveita, jafnvel þó að fjármunirnir séu miklir.

Mig langar líka að heyra örstutt frá henni um skólagjöld og þá staðreynd að við erum að borga álíka mikið til einkarekinna háskóla og opinberra háskóla (Gripið fram í: Það er rangt.) og hvort við þurfum ekki á einhvern hátt (Gripið fram í.) að koma okkur út úr því kerfi. (Forseti hringir.)