139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[14:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið en ég hvet hann til að fara í efnislega umræðu um þetta. Ég veit ekki hvenær við eigum að gera það, ekki gerðum við það í september. Lofað var samráði um sumarið, það var svikið. Það komu ekki fram efnisleg rök fyrir sameiningunni á septemberþinginu þannig að ég bara hvet hv. þingmann og ég er til í að taka efnislega umræðu um þetta núna, ég held að ekki sé seinna vænna.

Varðandi að stjórnsýslan sé of stór og of svifasein og vísað í rannsóknarnefndina í því samhengi þá var að vísu rannsóknarnefndin og þeir sem hafa verið að skoða þetta að tala um að sumar einingarnar væru of litlar. Meðal annars var talað um það í tengslum við forsætisráðuneytið ef menn eru að vísa í niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar og þær bollaleggingar sem voru um það.

Það má breyta mörgu í stjórnsýslunni og það er afskaplega mikilvægt og stórt mál að stefnumótun sé betur sinnt á vettvangi stjórnkerfisins eða í stjórnsýslunni. Í mörgum tilfellum hafa undirstofnanirnar í rauninni allt of mikið um málin að segja, m.a. út af því hversu veik ráðuneytin eru. Þess vegna hafa menn verið að ræða um breytta áherslu á vinnulagi í stjórnsýslunni. Síðan hafa menn sérstaklega bent á, og ég veit að hv. þingmaður þekkir það vel ef hann rifjar það aðeins upp, að ráðuneytin séu mörg of lítil. Ég var að vísa til litlu ráðuneytanna, að þau gætu illa sinnt hlutverki sínu og þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra, m.a. út af þeim lögum sem við erum búin að samþykkja hér. Þess vegna er rökrétt að byrja á því að taka litlu ráðuneytin og sameina þau. Það er fullkomlega óskiljanlegt af hverju það er látið vera (Forseti hringir.) en þau ráðuneyti sem eru með stóru málaflokkana eru hins vegar sameinuð.