139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Forsendubresturinn er tvíþættur. Hann er fjárhagslegur og má segja að hann sé þríþættur. Hann er fjárhagslegur, hann er sú staðreynd að stofnanirnar sjálfar eru ekki tilbúnar og ekki hefur verið unnin sú greiningarvinna, kostnaðarvinna, DRG-greining á þeim stofnunum sem þessar breytingar á Sjúkratryggingastofnun Íslands byggja á.

Það má líka segja að forsendubrestur hafi orðið hvað varðar hugmyndafræði. Hér varð jú breyting á ríkisstjórn fyrir rúmu ári, fyrir einu og hálfu ári urðu hér skipti á ríkisstjórn og þessi ríkisstjórn hefur aðrar hugmyndir hvað varðar kaup og sölu á heilbrigðisþjónustu. Verið er m.a. að gefa sér þann tíma sem þarf til að fara vel yfir hvernig Sjúkratryggingar Íslands eiga að vinna og hvernig skiptingin á milli Tryggingastofnunar ríkisins, heilbrigðisráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands eiga að vera í framtíðinni.

Á þessum tímamótum, þegar stutt er í áramótin og öll samningagerð átti að færast yfir til Sjúkratrygginga Íslands, er hvorki stofnunin, ráðuneytið né heilbrigðisstofnanir úti um land tilbúnar í þessa breytingu. Ég tel að rétt sé, og með vísan til þeirra orða sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur haft hér uppi um að stunda skuli vönduð vinnubrögð og gera faglegar úttektir og góðar greiningar, að lagst sé í þá vinnu og hún unnin áður en síðasti hlutinn er fluttur yfir.