139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

Orkuveita Reykjavíkur.

205. mál
[16:28]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það gleður mig sérstaklega að varaformaður hv. iðnaðarnefndar, hv. þm. Lilja Rafney, skuli draga virðugleika minn svona fram í nefndarálitinu. Það gleður mig. Ég vona að þetta viti á nýja tíma og framvegis verði þetta sérstaklega dregið fram.

Frumvarpið fjallar um að stofnað verði sameignarfyrirtæki um Orkuveitu Reykjavíkur. Reglur EES hafa leitt til þess að leiða þarf fram að fjárhagsleg ábyrgð á lánaskuldbindingum Orkuveitu Reykjavíkur verði skýrð í lögum og að Orkuveita Reykjavíkur verði hér eftir að borga ábyrgðargjald til eigenda sinna af þeim ábyrgðum sem endurspegli að fullu þá ívilnun sem fyrirtækið nýtur.

Reykjavíkurborg á langmest í Orkuveitu Reykjavíkur og ef við mundum til einföldunar hugsa um Reykjavíkurborg sem samstæðu þá skiptir þetta litlu fyrir tekjur og kostnað borgarinnar. Sá kostnaður sem Orkuveitan verður fyrir myndast sem tekjur í samstæðunni þannig að þetta þurrkast raunverulega út.

Nú er það ekki svo að við getum alveg litið á þetta þannig, við verðum að líta á Orkuveituna sem sérfyrirtæki og skoða kostnaðinn hjá fyrirtækinu burt séð frá borgarsjóði og sveitarsjóðum þeirra sveitarfélaga sem eiga í fyrirtækinu. Þá komum við að því að lagabreytingin mun leiða til aukins kostnaðar fyrir Orkuveituna, kostnaðar sem er eðlilegur vegna þess að hann er til að greiða fyrir ábyrgð lánanna. En einhvers staðar verður að veita þessum kostnaði út og hann mun þá væntanlega verða til þess að annaðhvort minnkar arðsemi fyrirtækisins eða þá að hækkununum verður velt út í verðlagið.

Orkuveita Reykjavíkur er í fararbroddi hvað háhitavirkjanir varðar og öll kostnaðarplön fyrirtækisins munu þurfa að taka tilliti til þessa hækkaða ábyrgðargjalds. Arðsemi virkjunarinnar mun þá m.a. verða að falla að ábyrgðargjaldinu og væntanlega leiðir það til hærra verðs á afurðum fyrirtækisins, sem eru annars vegar rafmagn og hins vegar heitt vatn.

Þá skyldi maður spyrja: Hvert er markmiðið með lagafrumvarpinu? Það kemur að einhverju leyti fram í frumvarpinu en kom vel fram á nefndarfundum meðan iðnaðarnefnd fjallaði um málið. Markmiðið þar var fyrst og fremst sagt vera að uppfylla kröfur EES-samningsins. Þetta er því mál sem stafar beint af EES-samningnum og fellur þar af leiðandi í þann flokk sem við köllum oft tæknileg mál sem ekki ríkir mikill pólitískur ágreiningur um. Ég vildi samt í ræðu minni benda á afleiðingarnar af þessu máli, ef það verður að lögum, þetta mun sennilega leiða til þess að rafmagn og hiti framleitt af Orkuveitu Reykjavíkur mun hækka sem nemur ábyrgðargjaldinu sem fyrirtækið þarf nú að greiða.