139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

afgreiðsla fjárlaga.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekkert nýtt við þessa afgreiðslu nema það að þessi ríkisstjórn hefur tekið með mjög ábyrgum hætti á fjárlagagerðinni, bæði á gjalda- og tekjuhlið, við þær erfiðu aðstæður sem við erum í núna. Þegar horft er í gegnum tíðina býst ég ekki við að annað sé hægt en að hrósa ríkisstjórninni fyrir það hvernig hún hefur staðið að þessu máli. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Það að ná fjárlagahallanum úr á þriðja hundrað milljarða vel niður fyrir 100 milljarða kr. á tveimur árum held ég að sé bara kraftaverk. Það að tekið sé á fjárlögunum er auðvitað stór liður í því að tryggja að við getum (Gripið fram í: Hverjir …?) farið í endurreisnina af fullum krafti eins og við höfum gert. (Gripið fram í.) Það er akkúrat forsendan fyrir því að við getum vel farið hratt í endurreisnina þegar við erum með 75 milljarða kr. í vexti sem við þurfum að standa straum af. (Forseti hringir.) Vissulega var hagvaxtarspáin verri en við bjuggumst við en það er líka margt annað sem hefur lagst með okkur þannig að hallinn verður ekki öllu meiri en lagt var upp með.