139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki komin hingað upp til þess að kallast á við hv. þm. Helga Hjörvar vegna tekjuáætlunar og áhrifa aukinna skatta á fjárlögin. Því var öllu svarað í dag ef hv. þingmaður hefði verið viðstaddur þá umræðu. Ég vil hins vegar undirstrika það að við vitum að áhrifin hafa verið gríðarleg, ekki síður hitt að útgjaldalækkunin á þessum tveimur árum, 2010 og 2011, er um 50 millj. en meginstabbinn af því, eða um 40%, er lækkun vaxtagjalda. Ég tel að við séum ekki enn þá byrjuð að hagræða í rekstri ríkissjóðs eins og við hefðum átt að gera.

Að mínum tveimur spurningum. Þær eru mjög einfaldar og auðvelt fyrir hv. þingmann að svara þeim. Var fjárlagafrumvarpið, það skiptir máli í ljósi umræðunnar sem hefur verið í dag, kynnt stjórnarflokkunum áður en það var lagt fram þannig að innihaldið, stóra myndin, kæmi þeim ekki á óvart? Það skiptir máli að einhver stjórnarþingmaður þori að svara þessari spurningu úr ræðustóli. Vissu hv. þingmenn stjórnarliðsins, og það er forvitnilegt að heyra hvert svarið er, af því hver stóra myndin í fjárlagafrumvarpinu var eða var hæstv. ráðherra að koma mönnum að óvörum með því að leggja frumvarpið fram eins og það var 1. október? Þetta er fyrsta spurningin.

Önnur spurningin snertir veggjöldin. Mig langar að spyrja hv. þingmann Reykvíkinga, Helga Hjörvar, að því hvort hann sé sammála samþingmanni sínum, svo ég vitni í hv. þm. Björgvin Sigurðsson, með leyfi forseta:

„Fyrirkomulag gjaldtökunnar hefur ekki endanlega verið útfært en aldrei hefur komið til álita á neinum tímapunkti í umræðu innan þingsins, þingflokka eða þingnefnda að innheimta gjöld út frá eknum kílómetrum í stað samræmdrar gjaldtöku …“

Hvert er álit hv. þm. Helga Hjörvars á samgöngumálunum og umræðunni varðandi gjaldtöku á akreinum í kringum borgina?