139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:35]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar aðeins til að ræða við hv. þingmann um vegtolla og annað er lýtur að ferðalögum og því að búa á landsbyggðinni.

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég er virkilega hlynntur því að varið skuli fjármunum af hendi ríkisins í vegabætur og tel það mjög mikilvægt. Ég hef hins vegar alltaf gagnrýnt vegtolla, finnst þeir vera skattur á þá sem búa á landsbyggðinni. Ég hef lengi gagnrýnt gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum og vil minna hv. þm. Kristján L. Möller á að Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi gaf fyrir síðustu kosningar eða hvort það var fyrir þarsíðustu kosningar mönnum frítt í göngin af því þeir ætluðu að afnema vegtolla þar í gegn. Af því hefur ekki orðið.

Mér finnst, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar áðan, eðlilegt að fólk sem borgar skatta geti keyrt um vegi án þess að borga veggjöld. Ég vil því spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji í öllu falli nauðsynlegt fyrir þessar framkvæmdir að þær verði fjármagnaðar með veggjöldum eða hvort hann telji mögulegt að fara í þessar framkvæmdir án þess að til vegtolla þurfi að koma.

Ég hef að sjálfsögðu áhyggjur af því að margt sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu komi virkilega niður á íbúum á landsbyggðinni, eins og niðurskurður á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, minni niðurgreiðslur til húshitunarkostnaðar o.fl. Hv. þingmaður nefndi sjálfur umhverfisvæna bíla sem ekki er skattur af og taka því eigendur þeirra ekki þátt í að byggja upp vegakerfið. Ég minni á að það er mjög erfitt að nota slíka bíla, hvort sem það eru rafmagnsbílar eða aðrir, á landsbyggðinni þar sem eru miklar og langar vegalengdir. (Forseti hringir.)