139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[13:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ekki aðeins voru vinnubrögðin við þetta fjárlagafrumvarp óásættanleg heldur er fjárlagafrumvarpið sjálft um margt vafasamt, og grískt í eðli sínu eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson og Pétur Blöndal bentu á áðan. Ýmis útgjöld vantar og tekjur eru ofáætlaðar með því sem ekki er hægt að kalla annað en blekkingar eða brögð. Risaútgjaldalið upp á 26 milljarða kr. út úr hagkerfinu sem kalla á a.m.k. 52 milljarða kr. niðurskurð er bara sleppt. Icesave-kröfunni sem ríkisstjórnin er að fara að tala fyrir á eftir er bara sleppt. Út úr fjármögnun 6 milljarða kr. nýrra útgjalda á að finna með óuppfundnum nýjum sköttum. Við skulum vona að þetta verði eina Grikklandsárið hjá þessari ríkisstjórn í fjárlagagerðinni en ég er dálítið hræddur um að svo verði ekki því að þau hafa verið að færa sig upp á skaftið. Ef fram heldur sem horfir gætum við séð hallalaus fjárlög á næsta ári þar sem málið verður leyst með einum stórum nýjum tekjulið sem verður kallaður nýir óuppfundnir skattar. (Forseti hringir.) [Hlátur í þingsal.]