139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[00:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Menn skulda af því þeir taka á sig skuldir og flýta neyslu. Ef þeir kaupa eitthvað skulda þeir. Menn eignast sparnað með því að fresta neyslu. Ef þeir fresta neyslu vilja þeir helst fá það til baka sem þeir frestuðu að neyta, t.d. tómatsósu. Ef einhver ætlar að kaupa tómatsósu og sleppir því og leggur fyrir andvirðið inn á reikning, vill hann helst geta keypt sér tómatsósu eftir 10 ár. Það er einmitt málið. Ef kaffibollinn hækkar vegna þess að verð á kaffi hækkar í Brasilíu, vill neytandinn geta keypt sér þann sama kaffibolla og hann sparaði í dag eftir 10 ár. Ef menn skilja ekki þennan grundvöll verðtryggingar er illt í efni.

Sparifjáreigendur, þeir örfáu sem eru svo vitlausir að leggja fyrir, fresta neyslu og sýna ráðdeild, treysta ekki bönkunum eða þessu skuldaraþjóðfélagi. Þeir treysta því ekki að þeir fái kaffibollann sinn til baka. Aftur og aftur hafa komið tímar í Íslandssögunni frá 1950–1980 þar sem sparifjáreigendur hafa tapað mörgum hundruðum milljarða til skuldaranna. Það hafði aldrei orðið önnur eins eignatilfærsla á Íslandi. (Gripið fram í: Jú, núna.) Íslenskir sparifjáreigendur hættu að treysta þessu, þeir hættu að spara og fóru að eyða eins og hinir. Það er vandinn í hnotskurn. Sparifjáreigendur eru allt of fáir, það er alltaf verið að hugsa um skuldarana.

Hér á Alþingi er 99% tímans eytt í skuldara og 1% í vandamál sparifjáreigenda sem tapa í dag á óverðtryggðum reikningum með vexti undir verðbólgu, og tapið er skattlagt.