139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[01:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra á þakkir skildar fyrir að hafa verið einn af þeim fáu ráðherrum sem áttaði sig fljótlega á því við hvers konar vanda væri við að fást. Hins vegar bendi ég á að strax í október 2008 lagði talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, mjög mikla áherslu á þann vanda sem hann sá fram undan, bæði varðandi verðtryggð lán og gengistryggð lán. Hann kom fljótlega í framhaldi af því með tillögu um gerðardóm og ákveðna úrlausn varðandi það en var algerlega hunsaður og síðan þegar dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í febrúar á þessu ári var sú niðurstaða algerlega hunsuð líka af þeirri ríkisstjórn sem hæstv. ráðherra á aðild að. Nú stöndum við hér 18. desember 2010 og erum loksins að fara að grípa til einhverra aðgerða.

Ég set stórt spurningarmerki við það þegar verið er að bera saman neyðarlögin annars vegar og þessa löggjöf, að hægt sé að færa fram jafnsambærileg rök hvað þetta varðar, því að þar var tekið undir að þetta væri neyðarástand. Ég verð að halda því fram að ef ríkisstjórnin hefði talið að þetta væri raunverulegt neyðarástand hefði verið gripið til aðgerða strax í október eða nóvember 2008. En vandinn var hunsaður og kannski er hann þess vegna orðinn meiri, það getur vel verið, einmitt vegna þess að ríkisstjórnin hefur hunsað að þetta sé ákveðið vandamál sem þyrfti að taka á, og hunsaði tillögur sem ég var 1. flutningsmaður að í þinginu og hunsaði tillögur sem sjálfstæðismenn voru 1. flutningsmenn að.

Mér finnst líka mjög mikið áhyggjuefni að horfa til þess sem verið er að vísa til í nefndarálitinu. Það er verið að lýsa yfir áhyggjum af a.m.k. tveimur greinum stjórnarskrárinnar. Það er verið að lýsa yfir áhyggjum af evrópskum neytendasjónarmiðum, það er verið að tala um alþjóðleg mannréttindaákvæði sem við viljum virða, sem sagt enn á ný ákvæði í íslensku stjórnarskránni um mikilvægi þess að fá að bera upp sín mál við dómstóla. (Forseti hringir.) Þetta er eitthvað sem ráðherrann þarf að svara fyrir, hver eru viðhorf hans gagnvart þessum alvarlegu ábendingum.