139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

raforkulög.

204. mál
[01:45]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar í þessu máli. Með þessu frumvarpi er lagt til að framkvæmd ákvæða raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta verði frestað til 1. janúar 2012. Ákvæði þau sem hér um ræðir voru samþykkt á Alþingi árið 2008 með lögum nr. 58/2008, í þá veru að gerð er krafa um að samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja verði rekin í aðskildum fyrirtækjum frá og með 1. júlí 2009. Í kjölfar lagabreytinganna átti sér stað 1. janúar 2009 formleg uppskipting Hitaveitu Suðurnesja hf. í HS Orku sem annast virkjanir og raforkusölu og HS Veitur sem annast veitustarfsemi fyrirtækisins, en ekki hefur orðið af sams konar uppskiptingu innan Orkuveitu Reykjavíkur. Orkuveita Reykjavíkur óskaði eftir því með bréfi 6. september sl. að iðnaðarráðherra flytti frumvarp til laga um frestun gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga. Hér er því um að ræða þriðju frestunina á framkvæmd þessara ákvæða en með lögum nr. 142/2009, um breytingu á raforkulögum, var gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga frestað í annað sinn til 1. janúar 2011.

Minni hlutinn telur forsendur frestunar gildistöku sem fram koma í frumvarpinu ekki standast, ljóst sé að Orkuveita Reykjavíkur er stærsta félag á Íslandi í smásölu og dreifingu á raforku og það sé einkar óheppilegt að það skuli vera síðast dreifiveitna til að skilja á milli samkeppnis- og einkaleyfisreksturs. Félagið starfar á fákeppnismarkaði og skipta fyrirtæki og heimili alla jafna við sama fyrirtæki í smásölu og dreifingu. Mikil hætta er á því að samkeppnisrekstur sé niðurgreiddur með tekjum af einkaleyfisstarfsemi og nauðsynlegt er að stemma stigu við þeirri hættu. Vill minni hlutinn benda á hækkun gjaldskrár Orkuveitu Reykjavíkur í fyrrahaust þar sem gjaldskrá raforkudreifingar var hækkuð um 40% en raforkusölu um 11% þrátt fyrir að félagið hafi sjálft reiknað út að hækkunarþörf í dreifingu væri 20% en í sölu 27%. Með þessari hækkun misnotaði Orkuveita Reykjavíkur hugsanlega undanþágu sína frá aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi og ekki þarf að hafa mörg orð um hversu alvarlegt það er ef fyrirtæki sem er ráðandi á markaðnum gengur þannig fram í skjóli sérstakrar undanþágu. Minni hlutanum þykir rétt í þessu sambandi að árétta að Samkeppniseftirlitið hefur til rannsóknar hvort þessi hækkun Orkuveitu Reykjavíkur sé brot á samkeppnislögum. Endanleg niðurstaða í því máli liggur ekki fyrir.

Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að óleyst væri fyrirsjáanlegt skattalegt óhagræði við yfirfærslu á eignum úr móðurfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, sem er sameignarfyrirtæki, í dótturfélag. Við þann flutning myndast t.d. skattalegur hagnaður en í skattalegu tilliti er farið eins með skiptingu félaga og sölu eigna til þeirra félaga sem við taka. Slíkt nær einvörðungu til hlutafélaga, einkahlutafélaga og samvinnufélaga, en Orkuveita Reykjavíkur fellur ekki undir þessi félagaform og gæti fyrirtækið því ekki nýtt sér uppsafnað rekstrartap. Minni hlutinn telur að þessi röksemdafærsla sé ótrúverðug. Það á ekki að skipta máli fyrir lánardrottna fyrirtækisins hvernig fyrirtækinu er skipt upp og hvort þessi breyting á félagsformi Orkuveitu Reykjavíkur yrði nú eða eftir 12 mánuði. Það er frekar spurning um verðlagningu á eignum svo fyrirtæki geti nýtt sér rekstrarleg atriði.

Undir þetta nefndarálit minni hlutans skrifa Jón Gunnarsson, Margrét Tryggvadóttir, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson og Tryggvi Þór Herbertsson.

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í þessu nefndaráliti telur minni hlutinn rökstuðning forsvarsmanna Orkuveitu Reykjavíkur ekki sannfærandi. Til að mynda hefur Orkuveitan ekki beitt sér af neinu afli á þessu ári í að vinna úr þessu skattalega óhagræði með því að fá fram breytingar á skattalögum í samvinnu við fjármálaráðuneytið. Þó eru þessi lög búin að liggja fyrir síðan 2008.

Orkuveita Reykjavíkur hefur þann rökstuðning fyrir máli sínu að fyrirtækið sé í endurfjármögnun um þessar mundir og að væntanlegir lánveitendur muni ekki sætta sig við þá óvissu sem skapast verði farið í þessa uppskiptingu nú. Á sama tíma kemur samt fram hjá fyrirtækinu að uppskiptingin hefur verið undirbúin og að í raun er ekkert í veginum innan fyrirtækisins við að framkvæma hana. Það er skoðun minni hlutans að það geti ekki skipt væntanlega lánveitendur fyrirtækisins máli hvort þetta taki gildi núna eða eftir eitt ár, þeir hljóti að hafa verið upplýstir í öllu ferlinu um þessi lög sem sett voru árið 2008 og að þau séu að taka gildi og geti því alls ekki haft áhrif á lánsfjárhæfi fyrirtækisins.

Það komu umsagnir og gestir til nefndarinnar í meðförum málsins og mig langar að vitna m.a. í umsögn frá fyrirtækinu Fallorku. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Orkuveita Reykjavíkur hefur því miður misnotað undanþágu sína frá aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi gróflega nú í haust, með því að hækka gjaldskrá raforkudreifingar um 40% en raforkusölu um 11%, þrátt fyrir að félagið hafi sjálft reiknað út að hækkunarþörf í dreifingu væri 20% en í sölu 27%. Það liggur í augum uppi að ætlunin er að hlunnfara viðskiptavini í raforkudreifingu, sem eiga sér engrar undankomu auðið, og nota afraksturinn til að niðurgreiða samkeppnisrekstur fyrirtækisins. Ekki þarf að fjölyrða um hve skaðlegt það er að fyrirtæki sem er ráðandi á markaðnum gangi þannig fram í skjóli sérstakrar undanþágu frá ákvæðum laganna.“

Þetta segir í umsögn Fallorku og er auðvitað mjög alvarleg ásökun ef rétt reynist, virðulegi forseti.

Nefndin fékk Samkeppniseftirlitið á sinn fund og í umsögn þess kemur m.a. fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Samkeppniseftirlitið telur forsendur frestunar gildistöku ákvæðis raforkulaga veikar. Samkvæmt fjárhagsáætlun Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2011 munu næstu ár vera ágæt samanber eftirfarandi ummæli:

„Í fjárhagsáætlun samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2011 sér glögg merki þeirra umfangsmiklu aðgerða sem gripið var til í rekstri OR síðsumars 2010. Markmið aðgerðanna var að styrkja fjárhagsstöðu fyrirtækisins, sem hafði veikst verulega. Gangi forsendur eftir og takist að framfylgja metnaðarfullum áformum um umbætur í rekstrinum, réttir fyrirtækið úr kútnum þrátt fyrir að ýmsar ytri aðstæður séu almennt ekki hagfelldar.““

Áfram segir í umsögn Samkeppniseftirlitsins, með leyfi forseta:

„Áætlunin gerir ráð fyrir nokkrum rekstrarhagnaði á árinu 2011 en að sjóðstreymið verði aðeins lítillega jákvætt. Fimm ára áætlun félagsins gerir hins vegar ráð fyrir stigvaxandi EBITDA framlegð. Miðað við áætlunina er EBITDA framlegðin sýnu mest af sölu raforku til stóriðju, dreifingu rafmagns og heits vatns og annarra sérleyfisþátta en minnst í smásölu á raforku.“

Þetta segir m.a. í umsögn Samkeppniseftirlitsins, virðulegi forseti, og segir okkur það að miðað við yfirlýsingar frá fyrirtækinu sjálfu er ekki hægt að lesa annað í það en að rekstrarhorfur félagsins séu nokkuð bjartar til einhverra ára litið og ætti því lánshæfismat fyrirtækisins að vera nokkuð sterkt, enda hefur komið fram í umræðum um fyrirtækið að staða þess sé sterk til lengri tíma og það vel fært til þess að gera upp skuldbindingar sínar.

Mig langar að vitna hér áfram í umsögn Samkeppniseftirlitsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að Orkuveitan er stærsta félag á Íslandi í smásölu og dreifingu raforku. Markaðurinn sem félagið starfar á er mjög samþjappaður og skipta fyrirtæki og heimili alla jafna við sama fyrirtæki í smásölu og dreifingu. Telur Samkeppniseftirlitið að ávallt sé hætta á því að samkeppnisrekstur sé niðurgreiddur með tekjum af einkaleyfisstarfsemi og að nauðsynlegt sé að stemma stigu við þeirri hættu.

Þá telur Samkeppniseftirlitið að vel megi halda því fram að það sé afar óheppilegt að stærsta félagið á sviði raforkusmásölu og dreifingar á Íslandi skuli vera síðast dreifiveitna til þess að skilja á milli samkeppnis- og einkaleyfisreksturs.“

Þetta var tilvitnun í umsögn frá Samkeppniseftirlitinu til nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og eins og kemur fram í áliti minni hlutans verður það í raun að teljast alveg ótrúlegt að Alþingi taki þá ákvörðun sem meiri hluti nefndarinnar leggur fram, þ.e. að gefa fyrirtæki sem er eitt eftir á þessum markaði undanþágu frá lögum sem sett voru 2008 og er þá um að ræða þriðju undanþágu. Fyrirtækið ætti að hafa haft nægan tíma til að undirbúa aðlögun sína að þessum breytingum og eins og ég nefndi áðan hefur komið fram frá fyrirtækinu að allri vinnu við undirbúning þessarar uppskiptingar er lokið. Við í minni hlutanum getum ekki stutt þá alvarlegu misbeitingu sem getur verið hér í samkeppnislegu tilliti sem bitnar þá, ef rétt reynist í þeim athugasemdum sem koma fram í umsögnum til nefndarinnar, á neytendum. Við teljum ekki við hæfi að Alþingi taki ákvörðun svo þvert á hagsmuni neytenda og þeirra umsagnaraðila sem gefa okkur þá mynd af þessu máli. Það teljum við vera alvarlegt og óverjandi.

Við í minni hlutanum viljum með öðrum orðum láta neytendur njóta vafans í þessu og leggjum það til að þessi frestun gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur, sem er eina fyrirtækið á þessum markaði sem á eftir að stíga þetta skref, gangi ekki fram heldur að öll fyrirtæki á þessum markaði sitji við sama borð.