139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[03:08]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir, dálítið eldfimt mál ef mér leyfist að bregða fyrir mig fimmaurabrandara hér á þessari myrku kreppunóttu.

Formaður umhverfisnefndar, hv. þm. Mörður Árnason, hefur farið vel yfir sjónarmið meiri hluta umhverfisnefndar í þessu máli sem lúta að ólíkum efnisatriðum. Mig langar sérstaklega að vekja máls á þeim hluta umræðunnar sem lýtur að brunavörnum á flugvöllum. Þar vil ég í upphafi leggja sérstaka áherslu á sjónarmið meiri hlutans að almenn lög um brunavarnir gildi líka á flugvöllum. Þetta grundvallarsjónarmið meiri hlutans er í fullkomnu samræmi við gildissvið brunavarnalaga á Norðurlöndunum. Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans er í reglugerðum flugmálayfirvalda um brunavarnir á flugvöllum á Norðurlöndum vísað til almennra brunavarnalaga og í almennum reglum um brunavarnir til reglugerðar flugmálayfirvalda. Meginreglan er því skýr, að á norrænum flugvöllum gilda almenn brunavarnalög hvers ríkis.

Ég vil gera að umtalsefni umræðuna sem skapast hefur um meinta kostnaðaraukningu við brunavarnir á flugvöllum vegna breytingartillagnanna sem meiri hluti umhverfisnefndar leggur til. Í umsögn fyrirtækisins Isavia frá 6. desember sl. sem birt er í heild sinni sem fylgiskjal með nefndaráliti meiri hluta umhverfisnefndar er fullyrt, eins og fram hefur komið í umræðunni, að tillögurnar muni hafa gríðarlegan kostnað í för með sér sem metinn er á alls 321 millj. kr. Þessar kostnaðarforsendur Isavia eru reifaðar í athugasemdum frá brunamálastjóra frá 9. desember sl. sem birtist einnig sem fylgiskjal með nefndaráliti meiri hlutans. Þegar farið er í gegnum þær röksemdir er ljóst að kostnaðarmat Isavia er að mati brunamálastjóra ofmetið um a.m.k. 150 millj., líklega nær 200 millj. kr.

Það sem vekur sérstaka athygli í þessu sambandi er ályktun brunamálastjóra að mat Isavia á kostnaðaraukningunni sé byggt ekki á kröfum brunamálayfirvalda heldur þvert á móti á auknum kröfum flugmálayfirvalda sem koma fram í tillögum Flugmálastjórnar til samgönguráðuneytisins frá 1. júlí 2010 um breytingar á reglugerð um viðbúnað á flugvöllum. Í þeim drögum er gert ráð fyrir að þrír menn séu á vakt á stærri flugvöllunum, þeim sem falla undir CAT V flokkinn en það eru flugvellir sem eru færir til að þjónusta Fokker-flugvélar. Ég hef í dag óskað eftir mati brunamálastjóra á kostnaðaraukningunni sem þessar nýju tillögur Flugmálastjórnar mundu leiða til, þ.e. miðað við þrjá menn á vakt. Niðurstaðan er sú að það mundi hafa í för með sér aukinn kostnað að fjárhæð tæplega 61 millj. kr. sem byggist á auknum mannafla á flugvöllunum á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði en óbreyttum mannafla á Reykjavíkurflugvelli.

Í þessu nýlega kostnaðarmati segir í minnisblaði brunamálastjóra, dagsett 17. desember 2010, með leyfi forseta:

„Brunamálayfirvöld og slökkviliðsstjórar munu hins vegar sætta sig við þær kröfur sem gerðar yrðu í nýjum drögum að reglugerð um flugvelli, þ.e. að þrír menn séu á vakt, ef sú mönnun er rökstudd og mennirnir hæfir til að sinna starfinu með búnaði sem er viðurkenndur.“

Í umræddu minnisblaði kemur fram að ef gerðar væru sömu kröfur um mannafla á vakt og á hinum Norðurlöndunum, þ.e. fjórir menn á vakt, mundi kostnaður aukast um tæplega 145 millj. kr.

Virðulegi forseti. Kjarni málsins er þessi: Fullyrðingar um að breytingartillögur meiri hluta umhverfisnefndar muni leiða til mörg hundruð millj. kr. kostnaðarauka fyrir rekstraraðila flugvalla á Íslandi, standast ekki skoðun. Hins vegar er ljóst að tillögur flugmálayfirvalda um aukið viðbúnaðarstig á flugvöllum geta aukið kostnað um 60–145 millj. kr. allt eftir því hvort fallist er á tillögu Flugmálastjórnar um þrjá menn á vakt á stærri flugvöllum eða fylgt fordæmi Norðurlanda um fjóra menn á vakt. Það liggur hins vegar fyrir að brunamálayfirvöld munu sætta sig við kröfurnar sem koma fram í tillögum flugmálayfirvalda um þrjá menn á vakt svo fremi sem sú mönnun er rökstudd og viðkomandi starfsmenn hæfir til að sinna starfi sínu sem og með viðkomandi búnað. Það er mín niðurstaða að góður grundvöllur sé fyrir samkomulagi flugmálayfirvalda og brunamálayfirvalda um endanlega útfærslu á fyrirkomulagi brunavarna á flugvöllum. Ég vil að endingu brýna hlutaðeigandi aðila til þess að slíðra sverðin í þessari deilu og leggja sig fram um að ná farsælli niðurstöðu á þessum nótum sem þjóni fyrst og fremst hagsmunum fólksins í landinu.