139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[03:28]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að tekist hefur sátt um breytingartillöguna sem, eins og kom fram hjá formanni umhverfisnefndar áðan, kom í framhaldi af þeirri umræðu sem hefur verið bæði við 2. umr. og nú við 3. umr. um þetta frumvarp um brunavarnir. Þetta er, eins og hv. þingmaður sagði, lokaáfanginn í þessari þrennu, skipulagslög, lög um mannvirki og svo brunavarnir, sem mig minnir að hv. formaður umhverfisnefndar hafi sagt að sé vinna sem hófst fyrir átta árum. Það er ágætt að ljúka umræðunni um frumvarpið 18. desember klukkan hálffjögur að nóttu og gera það að lögum helst á morgun þar sem þessari þrennu verður þá lokið.

Deiluefnið sem kom upp við 2. umr. lýtur að viðbúnaðarþjónustu flugvalla og varð ágreiningsefni milli meiri hluta nefndarinnar og nokkurra hv. þingmanna. Þó svo að ég hafi kannski farið fyrir þeim síðarnefndu í byrjun í ræðu minni við 2. umr. kom fram hjá formanni nefndarinnar að þær tillögur voru kallaðar aftur til 3. umr. og skoðaðar betur. Síðan hefur margt gerst.

Aðalatriðið, virðulegi forseti, er að sú sátt sem hefur nú myndast með þessari breytingartillögu er mjög mikilvæg, líka vegna þess að á þessum annatímum þingsins hygg ég að okkur veiti ekkert af því og hefði ekki veitt af því að fá aðeins meiri tíma til að vinna þessi mál. Það eru sannarlega miklar meiningar um það. Sá sem hér stendur hefur aldrei haft neitt annað að leiðarljósi en að öryggi flugfarþega sé númer eitt, tvö og þrjú. Hvernig þessi viðbúnaðarþjónusta hefur verið mönnuð hingað til og verður eftir þetta er verkefni sem bíður umhverfisráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hrinda af stað, samræma gildissvið og fá hreinar línur í það. Ég hef líka sagt að lög sem sett eru á Alþingi eigi ekki að vera þannig að mikil vinna sé fyrir lögfræðinga síðar og jafnvel innan dómstóla að takast á um hvernig skuli túlka. Þá hefur illa tekist til við lagasetninguna.

Ég held að grundvallaratriðið sé að það hafi engan tilgang að fara neitt í gegnum þetta mál efnislega, færa fram rök eins og ég ætlaði að gera í ræðu minni um málið eða fara yfir ýmsar umsagnir sem hafa komið og hvernig þetta er annars staðar o.s.frv. Ég held að það hafi engan tilgang núna. Aðalatriðið er að sú breytingartillaga sem ég ætla að flytja tekur á þessum málum og um þau er full sátt sem er hið besta mál. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er komið að lokum þessa máls. Það fer í þann farveg sem breytingartillagan segir til um þegar hún verður samþykkt á morgun og er málið þá í höfn þó svo að ráðuneytin tvö eigi eftir að vinna í því og kynna það fyrir umhverfisnefnd og samgöngunefnd Alþingis.

Breytingartillagan, virðulegi forseti, er við frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum, og breytingartillögu á þskj. 533. Ég sem 1. flutningsmaður tillögunnar er með fleiri flutningsmenn með mér, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, hv. þm. Birgi Ármannsson, hv. þm. Skúla Helgason, hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson og hv. þm. Mörð Árnason.

Þessi breytingartillaga fjallar um að:

1. 2. töluliður breytingartillögu á þskj. 533 falli brott.

2. 5. töluliður breytingartillögu á þskj. 533 falli brott.

3. Við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Við gildistöku laga þessara skulu umhverfisráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hrinda af stað vinnu sem miði að því að samræma gildissvið laga nr. 75/2000, um brunavarnir, með síðari breytingum, og laga nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum. Vinnan skal miða að því að skýra ákvæði laganna, m.a. hvað varðar viðbragðsstyrk á flugvöllum, starfsleyfisskyldu þeirra og eftirlit með þeirri starfsemi. Niðurstaða þeirrar vinnu skal kynnt umhverfisnefnd Alþingis og samgöngunefnd Alþingis eigi síðar en 15. maí 2011.

Virðulegi forseti. Svo hljóðar breytingartillagan sem flutt er, eins og ég segi, af sex þingmönnum og er nú komin sáttatillaga um þau ágreiningsefni sem uppi voru. Ég fagna því að sjálfsögðu og þakka þeim sem lögðu hönd á plóginn vegna þess að hér tókust á félagar innan flokka og á Alþingi um hvernig þessum málum skyldi háttað. Mál voru sem sagt sett í þann farveg að fella tvo töluliði brott, annars vegar 2. tölulið og hins vegar 5. tölulið, sem er grundvallaratriði, og síðan fer þriðji þátturinn í breytingartillögunni sem ég las upp áðan í að útskýra þetta.

Það sem í raun og veru var tekist á um er viðbúnaðarþjónusta flugvalla. Hún er sett, stimpluð og samþykkt af Flugmálastjórn Íslands sem er virkilega góð, fagleg stofnun og nýtur mikillar virðingar í alþjóðaflugheiminum þar sem fulltrúar hennar sitja í mörgum fagnefndum hjá samtökum sem heita EASA. Aðilar sækja oft fundi þeirra og ræða um tæknimál, þar með talið viðbúnaðarþjónustu flugvalla, slökkvilið og hvernig standa skuli að öryggi flugfarþega. Þeir koma síðan heim og uppfæra starfsreglur sínar og starfsskyldur flugvalla og fylgjast með þeim. Ég þekki vel, virðulegi forseti, sem fyrrverandi samgönguráðherra þá faglegu vinnu sem innt er af hendi hjá Flugmálastjórn. Ég get fullyrt að þar er það besta sem völ er á og vel fylgst með flugrekstraraðilum flugvallanna, bæði með eftirliti og svo uppfærslu, uppfræðslu og öðru þar sem m.a. eru sóttir erlendir fundir til að finna það nýjasta sem setja á þar inn.

Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að við erum ekki að tala um slökkvilið í þeirri merkingu heldur viðbúnaðarþjónustuna. Það eru þeir sem við, sem ferðumst mikið með flugi, sjáum sitja í slökkvibíl úti á flugvelli þegar vélar koma og fara og eru tilbúnir að koma ef einhver óhöpp verða. Það eru þeir sem munu vinna fyrstu tveggja, þriggja, fjögurra, fimm mínútna verkið og síðan kemur alltaf til aðstoðar hið öfluga og góða slökkvilið sem er í hverjum og einum bæ og auðvitað öflugast hér á höfuðborgarsvæðinu. Það deilir engin um hver hefur að gera með slökkviliðsmál og umsjón með mannvirkjum, húsum og öðru slíku við flugvelli. Þetta snýst fyrst og fremst um fyrstu viðbúnaðarþjónustuna.

Talað er um að setja niður og skýra ákvæði þessa viðbragðsstyrks, viðbragðsþjónustu flugvalla. Eins og ég sagði áðan og hef sagt við 2. umr. er grundvallaratriðið að lög frá Alþingi eigi að vera skýr svo að ekki þurfi að deila um hvað átt sé við. Ég held að það sé orðið mjög skýrt og fagna þeirri vinnu sem hér er sett fram.

Virðulegi forseti. Þessi tillaga er farsæl lausn á málinu og ég fagna henni. Ég vil þakka þeim sem hafa komið að henni. Ég fagna því auðvitað líka að hafa fengið fimm viðbótarflutningsmenn að henni. Það sýnir að víðtæk sátt er á Alþingi um málið og er það kannski gott dæmi um hvernig við eigum að vinna þó að ég hefði kosið að við hefðum gert þetta hálffjögur í dag en værum ekki að þessu að nóttu til. En aðalatriðið er að með þessari breytingartillögu er komin full sátt um þau deiluatriði sem hér voru. Ég vænti þess að tillagan verði borin upp á morgun og samþykkt með mörgum atkvæðum og fagna niðurstöðu málsins.