139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[10:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur býsna mikið til síns máls en ég tel að það sé óheppilegt að opna heimildir í skattalögum án vendilegrar skoðunar og sömuleiðis að opna þær einangrað því að þau sjónarmið sem hér eiga við um líknarfélög og ýmsa aðra slíka starfsemi eiga ekki bara við í erfðafjárskattinum, þau eiga auðvitað líka við í fjármagnstekjuskattinum og ýmissi annarri skattlagningu. Ég vil því af þessu tilefni lýsa því yfir að ég mun beita mér fyrir því að á vettvangi efnahags- og skattanefndar verði skattamál þriðja geirans tekin upp í heild sinni á nýju ári og skoðuð heildstætt. Ég þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæðið, þótt tillaga hans geti ekki náð fram að ganga á þessu stigi ýtti hann þó málinu af stað.