139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[10:56]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér stígum við stórt skref til að efla gagnaveraiðnaðinn á Íslandi og er það vel. Þessi iðnaður getur aukið þau verðmæti sem við búum til í landinu, frá mannauð okkar og ekki síður frá orkuauðlindum okkar.

Þetta var nokkuð flókið mál. Erlendir viðskiptamenn munu greiða fyrir þjónustuna sem veitt verður hér á landi og þurfti að gæta sérstaklega að skattalegri meðferð varðandi hvernig haga ber virðisauka í þessum málum út frá sjónarmiði jafnræðis og samkeppnisstöðu. En það er gott að við sjáum fram á lyktir þessa máls og ég þakka þingheimi öllum og þá sérstaklega meðlimum í iðnaðarnefnd og efnahags- og skattanefnd þingsins fyrir að hafa staðið saman að þessu máli.