139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[11:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við ræðum grafalvarlegt mál. Eftir hæstaréttardóm 16. júní, sem sagði að öll gengistryggðu lánin sem varða bíla væru ólögleg, vantar enn þá um 12 dóma. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson flutti frumvarp um að þessi mál fengju flýtimeðferð og það hefur ekki enn verið rætt.

Það er svo mikilvægt að niðurstaða fáist í það að það snýr að þjóðaröryggi, það varðar það að einstaklingar viti hvað þeir skulda og hvað þeir eiga. Hins vegar geta afskipti af málaferlum valdið skaðabótum fyrir ríkissjóð með því að setja lög sem grípa inn í málaferli þar sem annars vegar standa tugir þúsunda heimila og hins vegar fjármálastofnanirnar. Öll inngrip í það geta valdið skaðabótum og ég ætla ekki að segja meira svo það verði ekki notað í þeim málaferlum. (Forseti hringir.) Ég sit hjá.